Ungu íþróttafólki veitt hvatningarverðlaun

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Hvatningarverðlaun Grindavíkur voru afhent ungu íþróttafólki þann 29. desember, en viðurkenningarnar hafa verið veittar í tengslum við val á íþróttafólki Grindavíkur. Í ár fengu 10 ungmenni viðurkenningar frá sveitarfélaginu og má lesa um verðlaunahafana hér að neðan auk þess eru myndir af þeim sem höfðu tök á að koma og taka á móti verðlaununum.

Nokkrir iðkendur innan UMFG fengu hvatningaverðlaun og óskum við þeim innilega til hamingju.

Helga Rut Einarsdóttir hlaut hvatningarverðlaun fyrir körfuknattleik. Umsögn þjálfara hennar er svohljóðandi:

  • Helga Rut er iðkandi sem leggur sig 150% fram í því sem hún gerir á æfingum og í leikjum. Hún hlustar vel og meðtekur skilaboð frá þjálfara. Hún er fyrirmyndar leikmaður, með góðar hreyfingar og flott skot og kemur vel fram við liðsfélaga innan og utan vallar.

Ingólfur Hávarðsson hlaut hvatningarverðlaun fyrir knattspyrnu. Umsögn þjálfara hans er svohljóðandi:

  • Ingólfur er mjög metnaðarfullur og efnilegur markvörður. Hann mætir á allar æfingar og gefur alltaf 100% í allt sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann sýnir mikinn sigurvilja og er mjög jákvæður einstaklingur inná vellinum. Hann hefur tekið miklum framförum á öllum sviðum og hefur verið að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki karla, Ingólfur er ekki bara vinnusamur inná vellinum heldur er hann er mjög duglegur að vinna fyrir félagið. Ingólfur er leikmaður sem ungir iðkendur ættu að taka sér til fyrirmyndar þar sem hann kemur mjög vel fram innan sem utan vallar og er félagi sínu til mikils sóma.

Jón Eyjólfur Stefánsson hlaut hvatningarverðlaun fyrir körfuknattleik. Umsögn þjálfara hans er svohljóðandi:

  • Jón Eyjólfur er áhugasamur og fjölhæfur iðkandi sem leggur sig allan fram á æfingum. Hæfileikar hans eru ótvíræðir og haldi hann áfram á sömu braut á hann vísan frama í íþróttinni. Ástundun hans er með miklum ágætum og sinnir hann öllum æfingum af miklum þrótti. Hann er duglegur að mæta aukalega í íþróttasalinn til að vinna í sínum leik, bæði með öðrum en líka einn síns liðs. Hann er alla jafna einkar dagfarsprúður innan vallar sem utan þótt fyrir komi að eldmóður hans beri háttvísina ofurliði. Þá er hann drengur góður og verðug fyrirmynd annarra iðkenda.

Júlía Björk Jóhannesdóttir hlaut hvatningarverðlaun fyrir knattspyrnu. Umsögn þjálfara hennar er svohljóðandi:

  • Júlía Björk er einn af okkar efnilegustu leikmönnum í fótbolta. Enda metnaðarfull og  áhugasöm. Hún sýnir mikin vilja í að bæta sig á hverri æfingu og sýnir það sig heldur betur á vellinum. Júlia var valin í æfingarhóp U16 sem æfði í október. Hún spilaði einnig sinn fyrsta meistarflokks leik í sumar, þar sem hún setti einnig sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk. Ef Júlía heldur áfram á sömu braut eru allir hennar vegir færir, bæði í fótboltanum eða lífinu.Hefur hún tekið virkan þátt í starfi félagsins þar sem hún hefur aðstoða við þjálfun. Enda frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. 

Kent Mazowiecki hlaut hvatningarverðlaun fyrir judó. Umsögn þjálfara hans er svohljóðandi:

  • Kent er samviskusamur iðkandi og jafnframt góð fyrirmynd fyrir aðra iðkendur. Hann er duglegur að sækja æfingar og leggur sig allan fram. Með þessu áframhaldi kemst hann langt í íþróttinni.

Óskar Freyr Björnsson hlaut hvatningarverðlaun fyrir sund. Umsögn þjálfara hans er svohljóðandi:

  • Óskar sinnir sundinu einstaklega vel, mætir vel á æfingar og er metnaðarfullur. Gaman er að fylgjast með Óskari á æfingum þar sem hann leggur sig ávalt 100% fram. Óskar hefur einnig tekið framförum í hraða og hefur mikinn sprengikraft. Hann kemur ávalt vel fram, er kurteis og prúður drengur.  Ég vona sannarlega að þessi viðurkenning verði þér hvatning að halda áfram og taka enn frekari framförum.

Tómas Breki Bjarnason hlaut hvatningarverðlaun fyrir pílukast. Umsögn þjálfara hans er svohljóðandi:

  • Tómas Breki varð í 3-4 sæti í íslandsmóti unglinga á þessu ári. Hann var valin í landslið U18 sem tók þátt í JDC heimsmeistararmóti sem var haldið í Gíbraltar á þessu ári. Tómas hefur tekið stöðugum framförum frá því að hann byrjaði að æfa pílukast og það hefu verið gaman að sjá hann vaxa og þroskast sem pílukastari. Hann tók mikið stökk í heimsmeistaramótinu í Gíbraltar þar sem hann sýndi meiri stöðuleika og spilaði af miklu sjálfstrausti.

Nánar á vef Grindavíkurbæjar – www.grindavik.is