Lög og samþykktir

Lög U.M.F. Grindavíkur

Nafn. 
1.gr.
Félagið heitir Ungmennafélag Grindavíkur, skammastafað U.M.F.G

Aðsetur. 
2.gr. 
Heimili og varnarþing er Grindavík
Félagið er aðili að íþróttabandalagi Suðurnesja og Ungmennafélagi Íslands.

Markmið. 
3.gr. 
Markmið félagsins eru:
Að auka áhuga félagsmanna og almennings á líkamsrækt og stuðla að alhliða íþróttaiðkun
Að auka áhuga félagsmanna á hverskonar félags- og tómstundastarfi
Að vinna gegn tóbaksnotkun, neyslu áfengis og annarra  vímuefna.
Að vinna að markmiðum og stefnuskrá Ungmennafélags Íslands með kjörorðum „Ísland allt“.

Félagar. 
4.gr. 
Félagi getur orðið hver sá, sem æskir þess og samþykir að gangast undir lög og skyldur félagsins og er samþykktur af stjórn þeirrar deildar, er hann óskar eftir að vera skráður í. Aðalstjórn skal samþykkja inntökubeiðni þeirra, sem ekki ætla að ganga í sérstaka deild. Heimilt er að láta skrá sig í fleiri en eina deild gegn greiðslu ársgjalds til viðkomandi deildar. Félagar teljast virkir, styrktar- eða ævifélagar:
a. Virkir félagar teljast þeir sem sækja æfingar hjá félaginu og þeir sem eru í stjórn félagsins eða gegna öðrum trúnaðarstörfum.
b. Styrktarfélagar teljast þeir sem ekki iðka íþróttir en vilja vera áfram félagar og styrkja félagið ár hvert með fjárframlagi sem aðalstjórn ákveður.
c. Allir sem náð hafa 50 ára aldri geta gerst ævifélagar. Gjald ævifélaga er ákveðin upphæð í eitt skipti fyrir öll.
d. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna aðalstjórn, einnig getur aðalstjórn vikið félaga úr félaginu fyrir stórfellt brot á félagsreglum.

Merki og búningur. 
5.gr. 
Merki félagsins er gult G á bláum skyldi með borða að neðan sem á stendur Grindavík. Aðalbúningur félagsins er gul treyja, bláar buxur og bláir sokkar. Breyting frá því er háð samþykki aðalstjórnar. Varabúningur er samþykktur af hverri deild fyrir sig.

Ársreikningur. 
6.gr. 
Semja skal ársreikning fyrir aðalstjórn U.M.F.Grindavík og einstaka deildir félagsins. Hver deild skal annars vegar gera upp rekstur barna- og unglingastarfs og hins vegar rekstur keppnisíþrótta fyrir 18 ára og eldri. Jafnframt skal semja samstæðureikning fyrir U.M.F.G.

Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju. Hann skal sýna yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok reikningsárs ásamt skýringum. Í ársreikningi skal sýna fjárhagsáætlun reikningsársins til samanburðar og í honum skal koma fram yfirlit um fjárhagslegar skuldbindingar félagsins.

Ráðinn skal löggiltur endurskoðandi til þess að yfirfara og árita ársreikninginn í samræmi við lög og relgur og góða skoðunarvenjur. Með endurskoðun sinni skal hann komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreiknings og ganga úr skugga um að fylgt hafi verið ákvæðum laga, relgna og samþykkta um meðferð fjármuna.

Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.

Skipulag félagsins. 
7.gr.
Félagið er myndað af einstaklingum í íþrótta- og félagsdeildum og félagsmönnum utan deilda. Félagið hefur sameiginlega aðalstjórn, sem er æðsti aðili þess milli aðalfunda. Málefnum félagsins er stjórnað af:
1. Aðalfundi félagsins.
2. Aðalstjórn félagsins.
3. Aðalfundum deilda.
4. Stjórnum deilda.

Stjórn. 
8.gr.
Aðalstjórn UMFG skal skipuð fimm aðalmönnum og þremur til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs í senn, meðstjórnendur skulu kosnir víxlkosningu, tveir í senn til tveggja ára. Varamenn skulu kosnir til eins árs í senn.  Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

Formaður boðar til fundar í aðalstjórn, þegar hann telur nauðsynlegt, eða ef 1 stjórnarmaður óskar eftir fundi. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála í aðalstjórn að undanskildum þeim málum sem fjallað er um í 16.gr. (heiðursmerki).

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti aðalstjórnar er mættur.

Aðalfundur félagsins. 
9.gr. 
Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Skal hann haldinn eigi síðar en 1.maí ár hvert. Auglýsa skal aðalfundinn opinberlega, í staðarblöðum, með viku fyrirvara. Aðalfundurinn telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Tillögum um breytingar á lögum skal senda aðalstjórn eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytingar á lögum félagsins, sem síðar koma fram ef 2/3 hlutar viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykktir.

Dagskrá aðalfundar. 
10.gr.
Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera sem hér segir:
1) Fundarsetning.
2) Kosinn fundarstjóri
Kosinn fundarritari
3) Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram.
4) Formaður félagsins leggur fram skýrslu aðalstjórnar um starfsemi og framkvæmdir á liðnu starfsári.
5) Gjaldkeri félagsins leggur fram og útskýrir endurskoðaða reikninga aðalstjórar og félagsins í heild fyrir liðið starfsár til samþykktar.
6) Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
7) Lagðir fram reikningar fastra nefnda til samþykktar.
8) Lagabreytingar sbr. 7.gr. og 10.gr.
9) Kosinn formaður.
10) Kosnir 4  menn í stjórn.
11) Kosnir 3 menn í varastjórn.
12) Kosnir 2 endurskoðendur og 1 til vara.
13) Kosning fastra nefnda er aðalfundur ákveður.
14) Ákveðið félagsgjald og ævifélagsgjald.
15) Önnur mál.
16) Fundarslit.

Aukaaðalfundur félagsins. 
11.gr. 
Aukaaðalfund félagsins má halda ef aðalstjórn álítur þess þörf eða ef ¼ atkvæðisbærra fundarmanna á aðalfundi félagsins óska eftir því, enda tilkynni þeir um leið fundarefni það er ræða á. Aukaaðalfundur er lögmætur sé til hans boðað skv. 7.gr. þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur. Lagabreytingar og stjórnarkosningar skulu þó ekki fara fram á aukaaðalfundi.

Atkvæðagreiðslur, kjörgengi og félagsgjöld. 
12.gr. 
Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema þegar um er að ræða tillögur til breytingar á lögum félagsins, en þær verða að samþykkjast af 2/3 viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna.

Kosningar skulu vera skriflegar ef þess er óskað. Séu atkvæði jöfn við stjórnarkjör skal kosning endurtekin. Verði þá atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða

13.gr. 
Allir skuldlausir félagsmenn 16 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnarstarfa, tillögurétt, atkvæðisrétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins.

14.gr. 
Aðalstjórn skal innheimta félagsgjald. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Félagsgjöld virkra félaga og styrktarfélaga skal ákveðið á aðalfundi félagsins.

Aðalstjórn, verkefni: 
15.gr. 

Aðalstjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess í aðalatriðum.

Aðalstjórn skipar alla trúnaðarmenn félagsins aðra en fulltrúa á ársþing sérsambanda ÍSÍ. Aðalstjórn er heimilt að skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum á hennar vegum og skulu þær leggja allar meiriháttar tillögur og ákvarðanir fyrir aðalstjórn félagsins til samþykktar.

Aðalstjórn skal ekki sjaldnar en einu sinni á ári halda fundi með formönnum deilda eða staðgenglum þeirra. Slíkir fundir kallast félagsráðsfundir og þar skulu helstu ákvarðanir aðalstjórnar kynntar og stefnumarkandi ákvarðanir ræddar.

Aðalstjórn skal hafa umsjón með stofnun nýrra íþróttadeilda.

Aðalstjórn hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og ræður starfsemi þess.

Viðurkenningar, heiðursmerki: 
16.gr. 
Aðalstjórn veitir viðurkenningar fyrir íþróttaárangur eða störf í þágu félagsins eða ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar samkvæmt sérstakri reglugerð sem samþykkt er á aðalfundi félagsins.

Deildir, starfssvið.
17.gr.
Hver deild innan félagsins skal hafa eigin stjórn, fjárhag. Hver deild skal vera fjárhagslega sjálfstæð og skal hafa tekjur, af ágóða íþróttamóta og öðrum fjáröflunum sem hún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn félagsins 8sbr. þó 25.gr.). Allar meirihátta fjárhagslegar ákvarðanir einstakra deilda ber að leggja fyrir aðalstjórn til samþykktar. Í hverri deild skal skrá í sérstaka bók eða í tölvu úrslit kappleikja og árangur einstaklinga eða annað markvert sem fram fer innan deildarinnar. Í lok hvers starfs skal gera úrdrátt um hið markverðasta sem síðan skal tekið inn í sameiginlega ársskýrslu félagsins.

Aðalfundir deilda. 
18.gr.
Aðalfundir deilda félagsins skulu haldnir eigi síðar en 15.mars ár hvert. Allir skuldlausir félagsmenn deildarinnar, 16 ára og eldri hafa atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi deildarinnar. Til aðalfundardeildarinnar skal boðað með viku fyrirvara með auglýsingu opinberlega. Aðalfundur deildar er löglegur ef löglega er til hans boðað.

19.gr. 
Dagskrá aðalfundar deilda félagsins skal vera sem hér segir:
1. Fundarsetning.
2. Kosinn fundarstjóri.
3. Kosinn fundarritari.
4. Fundargerð síðasta aðalfundar skal leggja fram.
5. Formaður deildar leggur fram skýrslu deildarstjórnar um starfssemina á liðnu starfsári.
6. Gjaldkeri deildar leggur fram og útskýrir endurskoðaða reikninga deildarinnar fyrir liðið starfsár
7. Kosningar
a. Kosinn formaður
b. Kosnir 2 til 6 meðstjórnendur
c. Kosnir 1 til 7 menn í varastjórn.
d. Kosnir 2 Skoðunarmenn og 2 til vara
e. Kosið í nefndir og ráð sem aðalfundur ákveður.
8. Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
9. Önnur mál
10. Fundi slitið

20.gr. 
Á aðalfundi deildar ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála. Kosning deildarstjórnar skal vera skrifleg ef þess er óskað. Ef atkvæði eru jöfn skal kosið að nýju, bundinni kosningu og fáist enn ekki úrslit ræður hlutkesti.

21.gr. 
Vanræki deild að halda aðalfund á lögákveðnum tíma skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

22.gr.
Stjórn hverrar deildar félagsins skal skipuð þeim fjölda manna sem segir í 19.gr. Deildarstjórn ákveður verkaskiptingu meðstjórnenda. Kjörtímabil deildarstjórnar er á milli aðalfunda viðkomandi deilda. Deildarstjórnirnar skulu vinna að eflingu félagsins, hver á sínu sviði. Deildarstjórn skipar þá fulltrúa sem Íþróttabandalagið ákveður að skuli vera fulltrúar félagsins á ársþing sérsambands ÍSÍ.

23.gr. 
Heimilt er stjórn deildar að boða til aukaaðalfundar deildar að fengnu leyfi aðalstjórnar. Til aukaaðalfundar skal boða á sama hátt og til aðalfundar. Dagskrá aukaaðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Fundarsetning.
2. a)Kosning fundarstjóra.
b)Kosning fundarritara.
3. Stjórnarkjör.
4. Milliuppgjör kynnt.
5. Fundarslit.

Stofnun nýrra deilda. 
24.gr.
Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrra deilda innan félagsins, skal aðalstjórn taka þær til athugunar. Samþykki aðalstjórn slíka ósk, skal hún sjá um undirbúning að stofnfundi sem fara skal fram samkvæmt ákvæðum laga þessara um aðalfund deilda. Stofnun hinnar nýju deildar skal síðan leggjast fyrir næsta aðalfund til staðfestingar.

Spjaldskrár. 
25.gr.
Aðalstjórn skal halda félagaskrá. Allar deildir skili inn Iðkendaskrá til aðalstjórnar sem haldi utan um heildarskrá félagsins.

Eignir. 
26.gr. 
Eignir hverrar deildar er sameign félagsins. Hætti deild starfsemi skal stjórn deildarinnar afhenda aðalstjórn félagsins eignir hennar. Taki deildin ekki upp starfsemi aftur innan 5 ára renna eignir hennar í aðalsjóð félagsins. Verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu vera í vörslu aðalstjórnar. Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi félagsins og þá með samþykki 4/5 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna.

Lagabreytingar. 
27.gr.
Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins og þarf til þess samþykki 2/3 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna sbr. 10.gr. Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en 14 dögum fyrir aðalfund félagsins.

Gildistaka. 
28.gr. 
Lögin þannig samþykkt á aðalfundi félagsins í maí 2020 og öðlast þau þegar gildi. Lögin þurfa staðfestingu ÍS og framkvæmdastjórnar ÍSÍ og UMFÍ. Sama gildir um síðari lagabreytingar.

Lög voru uppfærð á aðalfundi UMFG þann 20. maí 2020.