UMFG og CF Grindavík koma Grindvíkingum í samkomuform!

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Ungmennafélag Grindavík og Crossfit Grindavík hafa sameinað krafta sína í að halda Grindvíkingum, ungum sem öldnum, á hreyfingu í kórónuveiru faraldrinum – að koma öllum í sannkallað Samkomuform. Í ljósi hertra sóttvarnarlaga þá liggur allt íþróttastarf hjá UMFG niðri til 17. nóvember og því þarf að fara aðrar leiðir til að stunda íþróttir og almenna hreyfingu.

Næstu vikurnar munu þjáfarar á vegum Crossfit Grindavík ásamt íþróttafólki úr UMFG taka þátt í átaki sem felur í sér heimaæfingar. Á hverjum virkum degi verður birt æfing og myndband á samfélagsmiðlum UMFG og hjá Crossfit Grindavík. Um er að ræða styrktaræfingu með eigin þyngd sem allir íbúar Grindavíkur, ungir sem aldnir geta tekið þátt í og framkvæmt. Hvetjum við sérstaklega foreldra til að framkvæma æfingarnar með krökkunum og taka virkan þátt.

Við munum einnig vera með skemmtilegar þrautir næstu daga og vikur þar sem vegleg verðlaun eru í boði. Nánari upplýsingar um það síðar í vikunni.

Við hvetjum iðkendur UMFG til að taka þátt, taka myndir og merkja við okkur á t.d. instagram með því að nota myllumerkið #heimagrindavik #umfg #crossfitgrindavik

Við hjá UMFG viljum koma á framfæri þökkum til Crossfit Grindavík fyrir samstarfið í þessu verkefni. Við bjóðum öllum Grindvíkingum nær og fjær að taka þátt!

Æfing dagsins 2. nóvember 2020 – Myndband af æfingunni kemur inn á samfélagsmiðla síðdegis 2. nóvember.