Risaþorrablót UMFG í íþróttahúsinu 1. febrúar

Ungmennafélag GrindavíkurUMFG

Þorrablót UMFG verður haldið laugardaginn 1. febrúar nk. í íþróttahúsinu í Grindavík. Þetta sameiginlega þorrablót knattspyrnudeildar og körfuknattleiksdeildar er nú haldið í annað sinn og verður ekkert til sparað til að gera það sem glæsilegast. 

,,Þetta tókst vel í fyrra, aðsókn var góð en nú ætlum við að stækka þetta enn frekar og gera þetta að alvöru risa þorrablóti fyrir alla Grindvíkinga.Til þess að gera þetta að hefð þurfa Grindvíkingar auðvitað að standa saman og mæta og tilvalið að draga brottflutta Grindvíkinga með. Þetta eykur bara samkenndina hjá okkur. Þá fagnar bærinn 40 ára kaupstaðarafmæli og þetta er bara upphafið að frábæru afmælisári,” segir Jón Gauti Dagbjartsson eins af skipuleggjendum þorrablótsins.

Hann segir að dagskráin sé vönduð og metnaðarfull þar sem er blandað saman heimaskemmtikröftum og aðkeyptu skemmtiefni. Verðið er eitt hið ódýrasta á byggðu bóli og einnig á barnum. Þá verður úrvals þorramatur á boðstólum.

,,Rétt er að vekja athygi á því að ballið er aðeins fyrir matargesti, ekki er selt inn eftir mat. Ballið byrjar kl. 23. Í dag eru það knattspyrnu- og körfuknattleiksdeild sem halda stærstu böllin í bænum sem eru stór þáttur í afla tekna til reksturs deildanna. Það vantar eina stóra samkomu sem Grindvíkingar geta sameinast um og það er von okkar að þorrablótið verði í því hlutverki, eins og t.d. nýársballið var hér áður fyrr,” segir Jón Gauti og bætir því við að miðasalan lofi góðu.

Dagskrá:
  • Húsið opnar kl. 19:00, borðhald hefst stundvíslega kl. 20:00.
  • Veislustjóri blótsins verður enginn annar en Parísar-tröllið og hinn þjóðkunni Freyr Eyjólfsson.
  • Grindavíkurvinirnir Upplyfting sjá svo um stuðið á ballinu.
  • Meðal annarra skemmtiatriða verða:
  • Bæjarbragur – Sigurður Ingvason
  • Söngkonan á skíðunum – Helena Eyjólfsdóttir
  • Karaokee-kjammarnir Daddi Will, Palli Björns, Fjóla Ben og Tobba. Upprifjun frá karaokee-keppninni síðan á árum Hafurbjarnarins.
  • Karlakór Grindavíkur
  • Miðaverð er 5.900 kr.

Miðasala er hafin. Hún fer fram í Gula húsinu (Ægir 426 8605), Gauta í Olís (840 1719) og hjá Lindu í Palómu.