Risa þorrablót í íþróttahúsinu 1. febrúar í fullum undirbúningi

Ungmennafélag GrindavíkurUMFG

Nú er það endanlega orðið ljóst að þorrablót okkar Grindvíkinga verður haldið laugardaginn 1. feb. í íþróttahúsinu. Eitthvað hefur verið í umræðunni að ekkert blót yrði en það er af og frá. Knattspyrnu og körfuknattleiksdeildin ætla að bjóða upp á veglegt grindvískt þorrablót.

Allur undirbúningur er á góðu skriði og nú fyrir skemmstu var ákveðið setja meiri áherslu á veislustjórann heldur en í fyrra en þá var veislustjórn í höndum Jóns Gauta. Nú í ár er verulega bætt í og mætir enginn annar en Freyr Eyjólfsson á sviðið. Freyr var veislustjóri á fyrsta blótinu sem deildirnar héldu og nú er það samstarf rifjað upp.

Freyr býr nú í París og flýgur heim á klakann gagngert til þess að stýra okkur í hlátursköstum. Miðasala fer í gang fljótlega og er afar mikilvægt fyrir okkur sem að þessu standa að allir kaupi miða sem fyrst til þess að við vitum fjöldann með góðum fyrirvara. En það skiptir miklu máli uppá að gera húsið klárt í herlegheitin.

Hljómsveitin frá því í fyrra, Upplyfting heimtaði að fá að taka þetta ball og var lítið mál að verða við því en þeir slógu í gegn í fyrra. Fólk sem var búið að gleyma öllu sem heitir dans rifjaði upp gamla takta og hreinlega dansaði sig í buff. Vitað er til þess að hin ýmsu fyrirtæki hér bæ ætla að beina sínu fólki á þetta blót frekar en að vera halda sín eigin og með þannig samkennd og Grindvísku hugarfari getum við gert þetta blót að nauðsynlegri hefð hér í Grindavík og það er í lok dags okkar markmið. Í fljótu bragði má gera ráð fyrir að ekki verði hægt að selja meira en 400 miða en það á eftir að koma í ljós.

Nánari dagskrá verður auglýst nú á komandi dögum.

Þorranefndin