Klara endurkjörin formaður UMFG

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Aðalfundur Ungmennafélags Grindavíkur fór fram í gær í Gjánni. Dagskrá fundarins var hefðbundin en farið var yfir skýrslu stjórnar ásamt því að ársreikningur fyrir starfsárið 2021 var kynntur.

Klara Bjarnadóttir var endurkjörin formaður Ungmennafélags Grindavíkur á fundinum. Fram kom í máli hennar að almennt hafi starfisemi félagsins gengið vel þó áhrifa af heimsfaraldri hafi sannarlega gætt.

„Vinna við framtíðarsýn íþróttasvæðis Grindavíkur hófst á árinu 2021. Framkvæmdarstjóri vann að málinu ásamt starfsmönnum Grindavíkurbæjar. Fögnum við þeirri vinnu gífurlega en í ágúst 2020 sendum við erindi til bæjarins og óskuðum eftir að hefja þessa vinnu,“ segir Klara meðal annars í skýrslu stjórnar.

„Okkur vantar nýja sundlaug og betri aðstöðu fyrir fimleikana. Gervigras á fótboltavöllinn og betri aðkomu fyrir áhorfendur. Betri áhöld fyrir bardagagreinar og aðstöðu fyrir styrktarþjálfun. Þessu öllu viljum við breyta, gera aðstöðuna enn betri og munum við berjast fyrir því af öllum mætti. Ég er stolt af félaginu mínu. Stolt af fólkinu sem er tilbúið að vinna af heildum fyrir félagið sitt og gera ætíð það allra besta fyrir hag þess.“

Lesa má skýrslu stjórnar í heild sinni hér.

Hagnaður var af rekstri aðalstjórnar á rekstrarárinu. Heildartekjur aðalstjórnar á árinu 2021 voru ca 89,3 mkr.- en gjöld 87.7 mkr.- Hagnaður var því tæpar 1,7 mkr.- á rekstrarárinu 2021.

Breytingar á deildum félagsins

Á aðalfundinum var samþykkt tillaga frá aðalstjórn um að vísa Skotdeild og Skáknefnd úr félaginu. Ekki hefur verið starfsemi í þessum deildum um nokkurra ára skeið. Jafnframt var samþykkt tillaga um að endurskoða stöðu Taekwondodeildar innan UMFG í ljósi þess að iðkendafjöldi hefur ekki staðið undir rekstri deildarinnar undanfarin þrjú ár. Var aðalstjórn falið að leita lausna með framtíð deildarinnar á næstu vikum í samráði við stjórn Taekwondodeildar Grindavíkur.

Samþykkt var að bíða með fulla inngöngu Píludeildar inn í UMFG þar til á aðalfundi félagsins 2023 en Píludeildin verður áfram innan vébanda UMFG á reynslu fram á aðalfund að ári þegar kosið verður um fulla inngöngu Píludeildar inn í UMFG.

Á aðalfundinum voru Gunnlaugur Hreinsson og Kjartan Adólfsson kosnir til áframhaldandi stjórnarsetu til næstu tveggja ára. Bjarni Svavarsson og Ásgerður Karlsdóttir voru kosin til tveggja ára árið 2021 og sitja því áfram í stjórn.

Stjórn UMFG 2021-2022
Klara Bjarnadóttir, formaður
Bjarni Svavarsson
Ásgerður Karlsdóttir
Gunnlaugur Hreinsson
Kjartan Adólfsson

Varamenn í stjórn:
Ámundínus Örn Öfjörð
Guðrún María Brynjólfsdóttir
Tarcy Horne