Íþróttastarf fellur niður og sundlaugar loka til 17. nóvember

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Allt íþróttastarf Ungmennafélags Grindavíkur mun leggjast af næstu 2-3 vikurnar eða til 17. nóvember, samkvæmt nýjum hertum sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á miðnætti í kvöld. Til viðbótar þrengjast fjöldatakmarkanir úr 20 manns í 10. Einungis börn fædd 2015 og yngri eru undanþegin 2 metra reglu og grímuskyldu.

Ríkisstjórnin gerði grein fyrir hertum sóttvarnareglum í dag sem byggja að stórum hluta á minnisblaði sóttvarnalæknis. Ríkisstjórnin fundaði um tillögurnar í morgun.  Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði samfélagssmit töluvert útbreidd og þurfi því að herða aðgerðir.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að smit í samfélaginu sé enn mikið, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til 20. október. Því sé hætta á að hópsýkingar brjótist út og valdi enn meira álagi á heilbrigðiskerfið sem sé mikið fyrir.

Íþróttastarf óheimilt

Reglugerð heilbrigðisráðherra var birt samhliða blaðamannafundinum. Þar er áréttað frekar að íþróttir, þar með talið æfingar og keppnir, barna og fullorðinna hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing. Sund- og baðstöðum sem og líkamsræktarstöðvum skal lokað.

Ungmennafélag Grindavíkur er búið að fella niður allar æfingar í Sportabler til 17. nóvember næstkomandi. Vonandi verður hægt að hefja æfingar á nýjan leik á þeim tíma. Þetta er mikið högg fyrir okkar iðkendur að komast ekki á æfingar en líkt og í vor ætlar félagið að reyna að senda heimaæfingar til okkar iðkenda til að halda við efnið næstu vikurnar.

Hugum að sóttvörnum, förum varlega og hugsum vel um hvort annað á þessum erfiðu tímum. Með samstilltu átaki komumst við í gegnum þetta ástand!

Áfram Grindavík!