Hulda Björk og Matthías Örn íþróttafólk Grindavíkur

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Körfuknattleikskonan Hulda Björk Ólafsdóttir og pílukastarinn Matthías Örn Friðriksson voru í dag útnefnd íþróttakarl og íþróttakona Grindavíkur 2022. A lið Pílufélags Grindavíkur var útnefnt íþróttalið Grindavíkur 2022 og körfuknattleiksþjálfarinn Nökkvi Már Jónsson þjálfari Grindavíkur 2022.

Hulda Björk Ólafsdóttir, íþróttakona Grindavíkur 2022
Hulda Björk er fyrirliði og lykilleikmaður í liði Grindavíkur í körfuknattleik. Hún er frábær varnarmaður sem hefur bætt sig mikið sem sóknarmaður upp á síðkastið. Hún lék með U20 ára liði Íslands í ár og hefur bætt sinn leik mikið á árinu. Hún á bjarta framtíð fyrir sér. Hulda Björk er mikil fyrirmynd innan sem utan vallar.

Matthías Örn Friðriksson, íþróttakarl Grindavíkur 2022
Matthías Örn er fremsti pílukastari Íslands. Hann er efstur Íslendinga á stigalista Norðurlandamótaraðar PDC og varð fyrsti Íslendingurinn til að spila á stóru móti á vegum PDC. Hann er íslandsmeistari í pílukasti og var í liði Grindavíkur sem varð íslandsmeistari í liðakeppni. Matthías Örn er góð fyrirmynd, reykir ekki né drekkur og leggur sitt af mörkum til að stækka píluíþróttina á Íslandi.

A lið Pílufélags Grindavíkur, íþróttalið Grindavíkur 2022
A lið Pílufélags Grindavíkur er íslandsmeistari félagsliða. Leikmenn liðsins hafa unnið fjöldan allan af íslandsmeistaratitlum í bæði einmenning sem og tvímenning.

Nökkvi Már Jónsson, þjálfari Grindavíkur 2022
Körfuknattleiksþjálfarinn Nökkvi Már þjálfaði unglingaflokka á árinu ásamt því að sinna afreksþjálfun og leiðbeina á aukaæfingum. Hann hefur lagt mikinn metnað í þjálfun og leiddi metnaðarfulla vinnu við að uppfæra námskrá deildarinnar. Nökkvi Már er einstakur félagsmaður og ávallt tilbúinn að aðstoða yngri iðkendur við að bæta sig í körfubolta.

Þrjár efstu í kjöri á íþróttakonu ársins
1. Hulda Björk Ólafsdóttir, körfuknattleikur 80 stig
2. Svanhvít Helga Hammer, pílukast 79 stig
3. Una Rós Unnarsdóttir, knattspyrna 39 stig

Þrír efstu í kjöri á íþróttamanni ársins 
1. Matthías Örn Friðriksson, pílukast 88 stig
2. Ólafur Ólafsson, körfuknattleikur 60 stig
3. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson, knattspyrna 50 stig

Um valið 
Allar deildir UMFG sem og íþróttafélög með samstarfssamning við Grindavíkurbæ áttu kost á því að tilnefna íþróttafólk, lið og þjálfara úr sínum röðum.
Kjörið fór þannig fram að valnefnd sem samanstendur af tíu einstaklingum, þ.e. aðalstjórn UMFG og frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar fær kjörseðla í hendur. Hver fulltrúi í valnefnd greiddi þremur konum og þremur körlum atkvæði sitt með þeim hætti að sá sem settur var í efsta sæti fékk 10 stig, sá sem settur var í annað sæti 7 stig og sá í þriðja sæti 5 stig. Tíu greiddu atkvæði og mest var því hægt að fá 100 stig.

A-lið Píludeildar Grindavíkur sem varð Íslandsmeistari á árinu.

Nökkvi Már Jónsson var valinn þjálfari ársins 2022.