Ríkisstjórn Íslands hefur boðað hertari aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslu COVID-19. Aðgerðir taka gildi 31. júlí. Fram kom í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag að 39 smit séu nú staðfest og séu það 10 smit sem hafi bæst við á milli daga. Nú eru 215 manns í sóttkví og munu fleiri bætast við. Af þeim sökum þurfi að herða aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu smita.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, biðlaði á fundinum til íþróttahreyfingarinnar að öllum íþróttamótum og keppnum fullorðinna verði frestað í tíu daga eða þar til 10. ágúst.
Yfirvöld munu fylgjast grannt með stöðu mála og meta árangur aðgerðanna.
Aðgerðirnar í hnotskurn:
- Fjöldatakmörkun miðast við 100 einstaklinga í stað 500 áður. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.
- Breyting á fjöldatakmörkunum nú og fleiri aðgerðir munu gilda í tvær vikur.
- Tveggja metra nándarregla viðhöfð í allri starfsemi. Hún er ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin.
- Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra nándarreglu verður krafist notkunar andlitsgríma. Þetta á sem dæmi við um almenningssamgöngur, innanlandsflug, farþegaferjur og starfsemi, s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur.
- Tvöföld sýnataka verður við landamærin, bæði við komu og síðan á degi fjögur til sex ef fyrra sýnið reynist neikvætt.
- Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi tryggi aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd, sinni vel þrifum og sótthreinsun yfirborða eins oft og unnt er.
- Sundlaugar og veitingastaðir tryggi að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.
- Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað, s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.
Leikjum Grindavíkur í meistaraflokkum karla og kvenna sem fara áttu fram á næstu dögum verður frestað. Einnig leikjum hjá eldri aldursflokkum hjá. Nánari upplýsingar munu liggja fyrir strax eftir verslunarmannahelgi.