Grindavík fer í búninga frá Macron

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Ungmennafélag Grindavíkur hefur gert samning við búningaframleiðandann Macron til næstu fjögurra ára. Samningurinn felur í sér að íþróttafélagið í heild sinni mun framvegis klæðast fatnaði frá Macron við íþróttaiðkun og keppni.

Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir Ungmennafélag Grindavíkur en frá og með áramótum mun félagið sameinast í fatnaði frá einum búningaframleiðenda. Tvær stærstu deildir félagsins, knattspyrna og körfubolti, munu því færa sig til sama búningaframleiðenda sem mun hafa mjög jákvæð áhrif á iðkendur félagsins sem geta því samnýtt utanyfirfatnað félagsins í fleirri en einni íþróttagrein.

„Þetta er mjög ánægjuleg tímamót fyrir Ungmennafélag Grindavíkur,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri félagsins. „Við erum með þessu skrefi að sameina félagið hjá einum búningaframleiðenda og horfum mjög bjartsýn til næstu ára. Ég er mjög spenntur að hefja samstarfið með Macron sem þjónusta mörg öflug íþróttafélög hér á landi.“

„Það hefur verið stefna aðalstjórnar UMFG til nokkurra ára að fara með félagið í samstarf við einn búningaframleiðenda. Ég er þess fullviss að samstarfið við Macron muni fá mjög góð viðbrögð frá leikmönnum, þjálfurum og ekki síst foreldrum innan félagsins,“ segir Klara Bjarnadóttir, formaður UMFG.

„Grindavík er mjög spennandi íþróttafélag sem við erum mjög glöð með að fá inn í Macron-fjölskylduna,“ segir Halldór Birgir Bergþórsson, framkvæmdastjóri hjá Macron á Íslandi. „Grindavík er mikill íþróttabær sem mun stækka ört á komandi árum. Það er mjög spennandi að færa Grindavík í búninga frá Macron og við vonum að samstarfið eigi eftir að verða báðum aðilum gjöfult.“

Búningar væntanlegir

Grindavík mun leika í sérhönnuðum búningum frá Macron í körfuknattleik og eru þeir væntanlegir í sölu hér á landi fyrir jól. Grindavík mun ljúka samstarfi sínu við Stanno hjá knattspyrnudeild félagsins um áramót og verða nýir búningar fyrir meistaraflokka og yngri flokka kynntir inn eftir áramót.

Sala á fatnaði merktum Grindavík hefst um miðjan október en hægt verður að nota vefverslun Macron til að kaupa ýmsar vörur og varning merktan Grindavík.
Ungmennafélag Grindavíkur vill koma á framfæri sérstökum þökkum til Errea og Jóa Útherja fyrir farsælt samstarf á liðnum árum.