Jón Leósson, sem var fyrsti formaður UMFG, lést 22.apríl og verður jarðsunginn í Árbæjarkirkju í dag, 2.maí klukkan 13:00
Jón ólst upp á Siglufirði og lauk þar gagnfræðaprófi. Að því loknu fór hann 18 ára gamall til Keflavíkur og hóf störf í netagerð. Þaðan lá leiðin til Akraness þar sem hann lærði netagerð og varð netagerðarmeistari 1960. Jón og Iðunn hófu búskap á Akranesi en fluttust síðan til Grindavíkur 1961, þar sem þau bjuggu í 20 ár. Í Grindavík starfaði Jón aðallega við netagerð ásamt því að vera ötull í íþróttastarfi og félagslífi Grindvíkinga. Árið 1981, eftir erfið veikindi Jóns, fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Þar hóf hann störf hjá Asiaco og starfaði þar og síðar hjá Ísfelli í ríflega 10 ár. Eftir það vann hann ýmis störf, eins og heilsan leyfði.
Í afmælisriti UMFG sem kom út 2009 er eftirfarandi grein um Jón:
Jón Leósson, fyrsti formaður Ungmennafélags Grindavíkur, hefur glímt við veikindi um nokkurra ára skeið eftir að hann fékk heilablóðfall. Með miklu harðfylgi og þrautseigju hefur hann náð upp þreki þannig að hann er ferðafær en á erfitt með að tjá sig því málstöðvarnar hafa ekki komið til baka svo hann reynir að tjá sig með hreyfingum og svipbrigðum.
Í heimsókn til Grindavíkur milli jóla og nýárs var honum mjög hugleikin sú túlkun að Íþróttafélagið hafi verið endurreist því í hans huga var stofnað nýtt félag 1963, Ungmennafélag Grindavíkur, og fer hann ekkert ofan af því.
Jón var góður íþróttamaður
Til að fá smá samtímalýsingu af Jóni þá var Gunnar Tómasson spurður hvort hann myndi eftir Jóni, sem hann gerði:
„Jón var knattspyrnumaður, góður íþróttamaður ofan af Akranesi, sem segir mikið um hann,” segir Gunnar Tómasson, fyrrum formaður UMFG, sem kynntist honum vel á þessum árum. „Jón spilaði fyrir Grindavík þegar félagið tók fyrst þátt í 3. deildinni í Íslandsmótinu í knattspyrnu en hann er þar á skýrslu. Margir hafa ruglað honum saman við nafna hans sem var einn af leikmönnum gullaldarliðs Skagamanna, það voru því tveir leikmenn frá Akranesi sem hétu sama nafni, Jón Leósson, uppi á svipuðum tíma,” segir Gunnar og bætir við að Jón hafi haft ákveðnar skoðanir á því hvernig hlutirnir ættu að vera, og var ófeiminn við að segja frá þeim.
„Reyndar kom það mér á óvart hversu hreinskilinn hann var en óhætt er að segja að hann hafi komið til dyranna eins og hann var klæddur. Margir mundu segja hann jarðbundinn og hann var fljótur að kippa í spotta og ná mönnum niður á jörðina ef menn fóru á eitthvert flug sem var ekki honum að skapi. Þess vegna fannst mörgum hann neikvæður og þungur en það var ekki þannig. Það var mjög gott að leita til hans. Hann var mjög hjálpsamur,” segir Gunnar og tekur undir þau orð sem ritstjóri hefur heyrt frá öðrum að það hafi verið gæfa íþróttalífsins í Grindavík að Jón Leósson flutti til bæjarins og sá þörf fyrir að koma íþróttunum í skipulegan farveg.
Aðalgeir Jóhannsson, kenndur við fyrirtækið sitt Krosshús, segir í leikskrá fótboltadeildarinnar frá 1992 að það hafi ekki verið fyrr en um miðjan sjöunda ártug síðustu aldar að skipulega var farið að sinna yngri flokkum í fótbolta.
„Ungur Skagamaður sem hafði verið hér nokkrar vetrarvertíðir tók málin í sínar hendur og náði strax mjög góðum árangri. Það er eins og þurfi alltaf einhvern utanaðkomandi til að hrinda ýmsu í framkvæmd. Þegar áhugasamir íþróttaunnendur flytja til bæjarins gerist alltaf eitthvað skemmtilegt, það fylgja þeim nýir straumar sem hrífa með sér þá starfsemi sem fyrir er og gera hana ennþá sterkari og kraftmeiri, enda alveg sjálfsagt að taka aðra sér til fyrirmyndar og ekki lakara að fyrirmyndir séu sóttar upp á Skaga, þar sem hefðin er svo sterk fyrir góðu knattspyrnustarfi,” sagði Aðalgeir og lýsir á skemmtilegan hátt hvernig hafi verið umhorfs í Grindavík á þessum árum þegar Jón Leósson kom til Grindavíkur:
„Þeir sem voru að alast upp í Grindavík í kringum 1960 léku sér í fótbolta á hinum og þessum túnum og aldrei vantaði grasblett. Þá voru í Grindavík bændur sem áttu mörg þúsund kindur og sumir áttu líka beljur, svo þörfin fyrir heyið af túnunum var mikil,” segir Alli og bætti við að árið sem þetta var skrifað voru ekki lengur nautgripir í Grindavík og kvikfénaðinum fækkað niður í nokkur hundruð svo að þá beri svo við að hvergi sé að finna fyrir grasblett í frjálsum fótbolta. Alli bendir á að á þeim tíma sem Jón kom hafi vantað skipulegt félagslíf og æfingar fyrir krakkana en svo hafa það orðið of mikið skipulag og bæjarlandið breyst þannig að hvergi var hægt, eða enginn hugsaði fyrir því, að hinn frjálsi leikur á opnum svæðum væri hluti af tilverunni og þar kæmi oft fram bestu efnin í snilldar íþróttamenn.
Árið 1981 gaf knattspyrnudeildin út veglegt blað um starfsemi UMFG. Til að fá sjónarmið nokkurra einstaklinga var boðað til hringborðsumræðna þar sem voru Jón Leósson, formaður UMFG í annað sinn, Gunnar Vilbergsson, formaður knattspyrnudeildar, Haukur Hafsteinsson, þjálfari og atvinnurekendurnir Dagbjartur í Fiskanesi, Aðalgeir í Krosshúsum og Eiríkur í Þorbirni.
Jón var spurður hvort ekki væri einblínt of mikið á peninga til daglegs reksturs og hvort ekki vantaði víðtækari anda í íþróttastarfið.
Þessu svaraði Jón: „Við megum aldrei, í öllu þessu peningatali, tapa áhugamannahugsjóninni. Ef ekki koma fram menn með ódrepandi áhuga og vilja til að gera hlutina, þá verða engar framfarir. Ég vil nefna sem dæmi að sl. 4 ár hefur knattspyrnudeildin tekið stökk fram á við. Það vil ég að mestu leyti þakka Sigurði Ólafssyni að öðrum ólöstuðum.”
Dagbjartur: „Gleymið ekki Kobba.”
„Nei, ég vil ekki gleyma neinum og síst Jakobi Eyfjörð, en ég er bara að segja það, að það þarf ekki nema einn góðan til að hrinda málum af stað og auðvitað þarf þá að vera virkur hópur til að fylgja málum eftir,” svaraði Jón á þessum tíma en hann var formaður öðru sinni 1980-´81.”