Cober og Anton Ingi þjálfarar Grindavíkur 2020 og mfl. kvenna í knattspyrnu lið Grindavíkur 2020

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Knattspyrnuþjálfararnir Nihad Cober og Anton Ingi Rúnarsson voru í dag útnefndir þjálfarar Grindavíkur árið 2020. Þá var lið meistaraflokks kvenna í knattspyrnu valið lið Grindavíkur árið 2020. Bæði verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn í ár.

Þeir Cober og Anton Ingi þjálfuðu lið UMFG í 5. flokki karla síðasta tímabil með undraverðum árangri. Liðið var Íslandsmeistari A-liða í 5. flokki sem er einstakur árangur. Þess má geta að 46 lið eru skráð í keppni A-liða landinu öllu.

Fjöldi iðkenda er því mikill og samkeppnin hörð. Liðið tapaði aðeins einum leik í allt sumar og hafa Cober og Anton Ingi náð að kenna drengjunum mikið, enda er tæknin, samspilið og leikgleðin í fyrirrúmi hjá þeim. Árangur þeirra og drengjanna vakti landsathygli enda gerist það ekki oft að lið úr minni byggðarlögum á landsbyggðinni beri sigur úr býtum úr í Íslandsmóti A-liða.

Kvennalið UMFG í meistaraflokki í knattspyrnu fékk viðurkenningu sem lið ársins. Grindavík vann sigur í 2. deild kvenna í sumar og leikur því í Lengjudeildinni á næstu leiktíð. Liðið byrjaði tímabilið illa og tapaði snemma tveimur leikjum. Liðið snéri bökum saman og lék frábærlega það sem eftir lifði keppnistímabili og fagnaði að lokum sigri í deildinni. Liðið fékk á sig fæst mörk allra liða í deildinni sem sýnir vel liðsheildina innan liðsins. Frábær andi var innan liðsins og leikmenn tilbúnir til að vinna fyrir hvor aðra. Liðið sýndi og sannaði að með góðri liðsheild er hægt að ná frábærum árangri.

Þess ber að geta að Ray Antony Jónsson, þjálfari meistaraflokks kvenna í knattspyrnu var jafnframt til nefndur sem þjálfari Grindavíkur í ár.

Verðlaunahöfum er óskað til hamingju með árangurinn á árinu!