Bjarni endurkjörinn formaður UMFG

Ungmennafélag Grindavíkur UMFG

Aðalfundur Ungmennafélags Grindavíkur fór fram í gærkvöldi í Gjánni, samkomusal UMFG. Dagskrá fundarins var hefðbundin og var kosið til stjórnar. Bjarni Már Svavarsson var endurkjörinn formaður UMFG til næsta starfsárs.

Fjórir meðstjórnendur voru einnig kjörnir en það eru þau Guðmundur Bragason, Kjartan Adólfsson, Klara Bjarnadóttir og Rúnar Sigurjónsson. Í varstjórn voru kosin þau Ámundínus Örn Öfjörð Gylfason, Tracy Vita Horne og Ásgerður Karlsdóttir.
Á fundinum fór fram góð umræða um starfsemi félagsins og komu fram góðar ábendingar um hvað betur mætti fara innan félagsins.

Samþykktar voru tvær lagabreytingar á fundinum. Annars vegar var gerð breyting á 8. gr laga UMFG um stjórnarkjör. Frá og með næsta aðalfundi verða tveir meðstjórnendur kosnir til tveggja ára í stað þess að allir meðstjórnendur séu kjörnir til eins árs í senn. Á næsta aðfundi verða því tveir meðstjórnendur kjörnir til eins árs og tveir til tveggja ára. Formaður verður ávallt kjörinn til eins árs í senn.

Hins vegar var gerð breyting á 19. gr. laga UMFG sem snýr að dagskrá aðalfunda deilda félagsins. Þessar lagabreytingar verða sendar inn til UMFÍ til umsagnar og taka gildi að því loknu.

Í fyrsta sinn á aðalfundi UMFG var ársskýrsla félagsins rafræn og má nú lesa allar ársskýrslur og sjá ársreikninga deilda félagsins á einum stað. Er þetta hluti af stefnu félagsins í þágu umhverfisverndar að hætta útgáfu á prentaðri ársskýrslu.

Sjá má rafræna ársskýrslu UMFG með því að smella hér: https://2019.umfg.is/