Tilkynnt hefur verið um hertar sóttvarnarreglur sem taka gildi á miðnætti 24. mars og gilda í 3 vikur. Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.
Allar skipulagðar æfingar hjá Ungmennafélagi Grindavíkur munu því liggja niðri næstu þrjár vikurnar eða þar til annað kemur í ljós.
Af vef Stjórnarráðsins:
Hertar reglur um sóttvarnarráðstafanir á landsvísu taka gildi á miðnætti í kvöld. Tíu manna fjöldatakmörkun verður meginregla og aðeins börn fædd 2015 og síðar verða þar undanskilin. Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað þar til páskafrí tekur við. Margvísleg starfsemi sem rúmast ekki innan reglu um 10 manna fjöldatakmörkun verður stöðvuð. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaaðgerðir byggist á tillögum sóttvarnalæknis um að grípa tafarlaust til ráðstafana vegna hópsýkinga innanlands að undanförnu til að sporna gegn frekari útbreiðslu veirunnar. Hertar reglur munu gilda í 3 vikur.
Nándarregla verður áfram 2 metrar og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Sem fyrr verða börn fædd 2005 og síðar undanþegin grímuskyldu en falla undir fjölda- og nálægðartakmarkanir. Börn í leikskólum eru undanþegin 2 metra reglunni og fjöldatakmörkunum.
Á meðal reglna sem taka gildi á miðnætti 24. mars (af vef Stjórnarráðsins):
- Almennar fjöldatakmarkanir 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2014 eða fyrr.
- Sund- og baðstaðir lokaðir.
- Heilsu- og líkamsræktarstöðvar lokaðar.
- Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.