Kynningarmyndband um uppbyggingu íþróttamannvirkja

Ungmennafélag GrindavíkurUMFG

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hefur ákveðið að hefja miklar framkvæmdir við íþróttamannvirki bæjarins. Eru þær kynntar í meðfylgjandi myndbandi sem hægt er að sjá hér.

 

Með endurskipulagningu og nýbyggingum á íþróttasvæði Grindavíkur er áætlað að bæta verulega aðstöðu til íþróttaiðkunar, keppnishalds og félagsstarfs í Grindavík.  Í hönnun aðstöðunnar er tekið tillit til mismunandi þarfa ólíkra íþróttagreina, skólastarfs, starfsmanna og gesta án þess að það komi niður á fjölnota möguleikum byggingarinnar.

Rétt er að taka fram að myndbandið sýnir MANNVIRKI Í HÖNNUN og er fyrst og fremst hugsað til að gefa íbúum innsýn í verkefnið. Það hafa nú þegar orðið smávægilegar breytingar á hönnun frá því myndbandið var gert, t.d. verður skrifstofa forstöðumanns í því sem kynnt er sem verslunarrými UMFG. 
Gott er að hafa í huga að sýnin í þrívíddarforritinu gefur ekki alveg rétta mynd af stærðum. Rýmin virðast í raun þrengri en þau raunverulega eru og ekki er farið inn í öll rými í myndbandinu, svo sem dómaraherbergi, sjúkraherbergi o.fl.

Íþróttamiðstöð Grindavíkur er hugsuð sem öflug viðbót við íþróttamannvirkin á svæðinu. Byggingin er í raun miðstöð eða hjarta sem tengir saman íþróttahús, sundlaug og íþróttasvæði utanhúss. Byggingin mun örva samnýtingu og tengsl húsanna sem fyrir eru um leið og hún er mikilvæg viðbót í æskulýðs- og unglingastarfi bæjarins og aflgjafi fyrir almenna íþróttaiðkun. Íþróttamiðstöðin verður nýtt hjarta íþróttaiðkunar í Grindavík. Byggingin er áfangi í uppbyggingu svæðisins og þarf að geta tengst frekari uppbyggingu sem líkleg er á svæðinu í náinni framtíð. Auk þess að vera anddyri og forsalur er byggingunni ætlað að mæta aukinni þörf á búningsklefum auk skrifstofu- og félagsrými Ungmennafélags Grindavíkur og Kvenfélagsins.