Hekla Eik og Matthías Örn íþróttafólk Grindavíkur 2021

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti, Píla, UMFG

Pílukastarinn Matthías Örn Friðriksson og körfuknattleikskonan Hekla Eik Nökkvadóttir voru í dag útnefnd íþróttakarl og íþróttakona Grindavíkur árið 2021. A lið Pílufélags Grindavíkur var útnefnt lið Grindavíkur 2021 og körfuknattleiksþjálfarinn Ólöf Helga Pálsdóttir þjálfari Grindavíkur 2021. Ungmennafélag Grindavíkur óskar verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn á árinu!

Matthías Örn Friðriksson, íþróttakarl Grindavíkur 2021
Matthías Örn Friðriksson varð á árinu íslandsmeistari í pílukasti (501), cricket á árinu og liðakeppni á árinu. Þá sigraði hann þrjú stigamót ÍPS á árinu og varð Grindavíkurmeistari. Matthías er efstur á stigalista Íslenska pílukastsambandsins. Hann er góð fyrirmynd, reykir ekki né drekkur og leggur sitt af mörkum til að stækka píluíþróttina á Íslandi.
Matthías Örn fékk 67 atkvæði af 100 mögulegum í kjörinu.

Hekla Eik Nökkvadóttir, íþróttakona Grindavíkur 2021 
Hekla Eik var valin besti ungi leikmaður 1. deildar kvenna á síðasta tímabili, valin í úrvalslið 1. deildar kvenna og valin í U18 ára landslið Íslands. Þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára gömul er hún í stóru hlutverki í liði mfl. kvenna og spilaði lykilhlutverk þegar liðið fagnaði sigri í úrslitakeppni 1. deildar kvenna sl. sumar.  Hún leggur hart að sér, æfir mikið aukalega og færir fórnir til að verða betri í sinni íþrótt. Hún er frábær fyrirmynd fyrir liðsfélaga sína og einnig yngri iðkendur.
Hekla fékk 94 atkvæði af 100 mögulegum í kjörinu.

A lið Pílufélags Grindavíkur, lið Grindavíkur 2021
A lið Pílufélags Grindavíkur varð Íslandsmeistari félagsliða í ár, en keppnin fór fram í fyrsta sinn að lokinni deildarkeppni. Liðið skipuðu þeir Björn Steinar Brynjólfsson, Hörður Þór Gunnarsson, Matthías Örn Friðriksson , Páll Árni Pétursson og Pétur Rúðrik Guðmundsson. Leikmenn liðsins eru allir öflugir pílukastarar sem hafa unnið fjöldan allan af íslandsmeistaratitlum í bæði einmenning sem og tvímenning.

Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Grindavíkur 2021
Ólöf Helga Pálsdóttir stýrði ungu og reynslulitlu liði mfl. kvenna til sigurs í úrslitakeppni 1. deildar kvenna sl. sumar. Liðið, sem bjó yfir frábærri liðsheild, bætti sig mikið á tímabilinu undir hennar stjórn. Liðið endaði í þriðja sæti í deildarkeppninni en bar sigur úr býtum í úrslitakeppni deildarinnar. Þar hafðið liðið lent 2-0 undir i úrslitaeinvíginu en undir stjórn Ólafar Helgu átti liðið ótrúlega endurkomu. Árangur liðsins mun verða lengi í minnum hafður í sögu körfuknattleiksdeildar UMFG.

Nánar er fjallað um valið á heimasíðu Grindavíkurbæjar – www.grindavik.is