Þrátt fyrir að starf yngri flokka hjá UMFG liggi nú niðri um stundarsakir þá eru iðkendur okkar á fullri ferð með öðrum liðum og eru að gera það gott á nýjum vígstöðvum. Á dögunum eignuðumst við til að mynda bæði Íslands- og bikarmeistara þegar þær Lára Kristín Kristinsdóttir og Natalía Nótt Gunnarsdóttir lyftu tveimur bikurum á loft með nokkurra daga millibili með Stjörnunni.
Fyrst var það Íslandsmeistaratitill í A-riðli. Þar mætti Stjarnan Selfossi í úrslitaleik sem vannst 4-1 á Samsung-vellinum og svo lagði liðið Þrótt 4-2 í bikarúrslitum. Lára og Natalía tóku þátt í báðum leikjum og þess má til gamans geta að Natalía skoraði mark í úrslitaleiknum gegn Selfossi eftir stoðsendingu frá Láru en það ranglega dæmt af vegna rangstöðu. Allir sem hafa séð endursýningu á markinu eru sammála um að þetta hafi verið dómaraskandall!
Þær Lára og Natalía, sem eru fæddar 2010, hafa æft saman með Grindavík síðan þær voru sex ára gamlar. Þegar flokkurinn þeirra, 4. flokkur, var lagður niður í bili, hafði Anton Ingi samband og fékk þær á æfingar með meistaraflokki. Þær komu báðar inn á í nokkrum leikjum með meistaraflokki í Lengjubikarnum í vor en ákváðu svo að skipta yfir í Stjörnuna.
Þær stöllur skiptu yfir í Stjörnuna seinni partinn í maí. Hópurinn hjá Stjörnunni er risastór, í heildina rúmlega 70 stúlkur og eru með fimm lið: A1,A2,B,C1 og C2. Þær væru settar til að byrja með í A2 en voru mjög fljótar að vinna sig inn í A1 og spiluðu með báðum liðum. Gunnar Ólafur Ragnarsson, faðir Natalíu, sagði í samtali við UMFG.is að hann þær væru virkilegar heppnar með nýtt félag.
„Frábær hópur af stelpum og mjög góðir þjálfarar. Hágæða æfingaaðstaða sem Stjarnan hefur upp á að bjóða og nú eftir að þessu tímabili var að ljúka ganga þær upp í 3. flokk. Spennandi tímar framundan!“
Ert þú með fréttir af grindvískum iðkendum í nýjum liðum? Sendu okkur línu á umfg@umfg.is og láttu okkur vita hvað okkar börn eru að gera og við deilum fréttunum áfram!