Forathugun hafin að gervigrasi á Grindavíkurvöll

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna, UMFG

Á dögum var samþykkt í bæjarráði að hefja forathugun á því hvort breyta eigi aðaknattspyrnuvelli Grindavíkur frá náttúrulegu grasi yfir í gervigras. Búið er að stofna starfhóp sem mun vinna forathugun og er stefnt að því að skila skýrslu þess efnis til bæjarráðs Grindavíkur í haust. Fulltrúar knattspyrnudeildar í þessum vinnuhópi verða; Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri UMFG, Helgi Bogason, varaformaður knd. Grindavíkur, og Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir, formaður unglingaráðs hjá knd. Grindavíkur. Frá Grindavíkurbæ verða í nefndinni Eggert Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningasviðs, Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs og Jóhann Árni Ólafsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja Grindavíkurbæjar.

Knattspyrnudeild Grindavíkur fagnar allri umræðu, sem og framkvæmdum, sem snýr að betri aðstöðu íþrótta hér í bæ. Var það tillaga deildarinnar að ráðast í forathugun á kostum og göllum þess að leggja gervigras á keppnisvöll félagsins og vinna hana með sambærilegum hætti og þegar Valur fór í sambærilega athugun á sínu svæði árið 2015.

Mikil þörf á aukinni æfinga- og keppnisaðstöðu

Æfingaaðstaða knattspyrnudeildar Grindavíkur yfir sumartíma er góð fyrir alla iðkendur deildarinnar og nær það tímabil yfir ca. 4 mánuði á ári. Aðra mánuði ársins er ekki sömu að segja. Þrátt fyrir að knatthúsið Hópið hafi gjörbreytt æfingaaðstöðu og nýtist sérlega vel fyrir iðkendur, ekki síst fyrir yngri iðkendur, þá er æfinga- og keppninsaðstaða ekki eins og ætla má í íþróttabæ sem Grindavík er á ársgrundvelli.

Þar sem knattspyrna í dag er heilsársíþrótt og keppni fer fram nánast alla mánuði ársins þá þurfa iðkendur að stunda keppni, frá 4. flokki (fermingaraldur) og upp úr, utan Grindavíkur stærstan part ársins. Reynt er að fá afnot af gervigrasvöllum víðsvegar til að spila heimaleiki félagsins og t.a.m. hefur hefur verið leitað á náðir Álftanes og Breiðholts varðandi slíkt. Fyrir utan það óhagræði að þurfa sífellt að leita út fyrir bæjarmörkin þá gefur að skilja að þeir tímar sem lausir eru á slíkum völlum eru oftar en ekki „afgangstímar“ og leiktímar því oft „óeðlilegir“ í því tilliti. Auk þess ber að sjálfsögðu að greiða slíka tíma sem hefur bitnað á rekstri deildarinnar.

Að vera áfram í fremstu röð

Þrátt fyrir að gott gras yfir hásumar á Íslandi séu úrvalsaðstæður til að stunda æfingar og keppni þá varir það tímabil hreinlega of stutt. Ráð til að lengja möguleika á æfingu og keppni utanhús er að félagið hafi aðgang af gervigrasvelli í fullri stærð sem nýtist þá í raun öllum iðkendum knattspyrnu í Grindavík. Grindvíkingar hafa ávallt borið sig saman við mun stærri klúbba og sveitarfélög þegar kemur að árangri og hefur mikill metnaður verði til staðar bæði hvað varðar yngri flokka sem og mfl. félagsins. Nú hafa mörg félög sem við höfum verið að etja kappi við í gegnum árin fengið bætta aðstöðu s.s. gervigrasaðstöðu og sjá má á þeirra starfi að sú þróun hefur verið jákvæð. Til að félagið og iðkendur haldið áfram að þróast og vera í fremsta flokki verður æfinga- og keppnisaðstaða að vera til fyrirmyndar og jafnvel þurfum við Grindvíkingar að vera „skrefi á undan“ öðrum sveitarfélögum í þessum málum ef vel á að vera.

Gervigrasvöllur þarf að sjálfsögðu að uppfylla staðla UEFA og FIFA. Undirlag þarf að vera upphitað, með úðunarkerfi og völlur upplýstur. Með því er reynt að tryggja notkun á vellinum nánast allt árið um kring. Væntanlega væri horft til þess að núverandi gras á aðalvelli félagsins yrði skipt út fyrir gervigras og þá er mjög aðkallandi að aðstaða við Hópið og stúku verði bætt og ráðist í þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru.

Knattspyrnudeild Grindavíkur leggur mikla áherslu á að verkefnið sé vel undirbúið og bindur miklar vonir við að forathugun muni færa fram niðurstöðu hvort grundvöllur sé fyrir því að færa aðalknattspyrnuvöll félagsins frá náttúrulegu grasi yfir í gervigras.