Whitney Frazier fór hamförum í fyrsta leik sínum fyrir Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Leiktíðin hjá Grindavíkurkonum í körfubolta hófst nú í liðinni viku þegar liðið tók á móti Breiðabliki í Lengjubikaranum. Okkar konur rúlluðu gestunum upp en lokatölur urðu 94-51. Glöggir aðdáendur liðsins ráku sennilega upp stór augu þegar þeir rýndu í tölfræði leiksins en samkvæmt henni var gamla kempan Stefanía Ásmundsdóttir með magnaða endurkomu í lið Grindavíkur, stigahæst með 22 stig, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Býsna gott fyrir 35 ára gamlan leikmann sem hefur ekki leikið í efstu deild í nokkur ár.

Blaðamaður Grindavík.is fór á stúfana og spurðist fyrir um málið. Stefanía, sem er einn af betri leikmönnum í sögu liðsins og efst í fjölmörgum tölfræðiþáttum, er því miður ekki að koma með “comeback”. Í ljós kom að um einhverskonar villu í tölfræðigrunni kki.is er að ræða. Leikmaðurinn sem hlóð í þessa rosalegu tölfræðilínu er hin bandaríska Whitney Frazier sem mun væntanlega leika með liðinu í vetur.

Whitney hefur undanfarin ár leikið með liði LA Tech skólans en hún útskrifaðist þaðan í vor. Þar á hún farsælan feril að baki en hún var í byrjunarliði skólans í 99 leikjum í röð. Hún var að meðaltali með 15 stig í leik og 7 fráköst. Alls skoraði hún 1.631 stig á sínum háskólaferli og er 16. stigahæsti leikmaður skólans frá upphafi. Hún er einn af aðeins þremur leikmönnum skólans frá upphafi sem hefur skorað í það minnsta 1.500 stig, tekið 800 fráköst, gefið 200 stoðsendingar og stolið 175 boltum.

Það er ljóst að þarna er hörku leikmaður á ferð. Whitney er skráð 6 fet á heimasíðu LA Tech, eða 182 cm. Hún spilar jöfnum höndum sem fram- og miðherji og klárar sín færi undir körfunni mjög vel. Þar fyrir utan er hún með gott skot og getur tekið boltann upp ef á þarf að halda. Það verður spennandi að fylgjast með henni og Grindavík í vetur.