Grindvíkingar tóku á móti Hetti í Dominsdeild karla í gærkvöldi. Í fyrri háfleik leit allt út fyrir að nýliðarnir myndu fara með sigur af hólmi í einvíginu en algjör viðsnúningur varð á leiknum í hálfleik og okkar menn lönduðu góðum sigri að lokum, 86-74. Jón Axel Guðmundsson gerði sér lítið fyrir og nældi í þrefalda tvennu annan leikinn í röð, með 24 stig, 11 stoðsendingar og 10 fráköst.
Davíð Eldur var á staðnum fyrir karfan.is, tók myndir og skrifaði umfjöllun:
Höttur hætti í hálfleik
Grindavík sigraði Hött með 86 stigum gegn 74 á heimavelli sínum, í hinni nýju Mustad höll fyrr í kvöld. Grindavík því búnir að sigra tvo fyrstu leiki sína tímabilsins á meðan að Höttur hefur tapað báðum sínum.
Leikurinn fór fjörlega af stað og ef eitthvað var virtust það vera gestirnir frá Egilstöðum sem myndu enda með að fara með stigin tvö aftur heim frekar en hitt. Undir lok fyrsta leikhlutans tóku austanmenn af stað og komu sér í þægilegt 7 stiga forskot í stöðunni 18-25.
Að mestu til hélst þessi munur svo alveg fram að hálfleik, en þegar að dómarar sendu leikmenn til búningsherbergja var Höttur kominn með 9 stiga forskot, 35-44. Þar sem mestu munaði um Jón Axel Guðmundsson fyrir heimamenn (11 stig/6 fráköst/4 stoðsendingar) á meðan að fyrir gestina var það Tobin Carberry sem dróg vagninn (14 stig/5 fráköst)
Í seinni hálfleiknum framkvæmdu heimamenn hinsvegar fullkominn viðsnúning á sínum leik. Unnu þriðja leikhlutann með 13 stigum 22-9 og voru því komnir með fjögurra stiga forystu fyrir loka sprett kvöldsins. Fjórði leikhluti var svo ekkert ósvipaður þeim þriðja, Grindavík var með leikinn í greipum sér og lítði benti til annars en að þeir myndi klára dæmið og sigla stigunum tveimur í höfn.
Leikurinn endaði sem fyrr segir með 12 stiga sigri heimamanna og meistararnir frá því fyrir tveimur árum taplausir eftir tvær umferðir.
Maður leiksins var leikmaður Grindavíkur Jón Axel Guðmundsson, en hann skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 11 stoðsendingar á þeim tæpu 33 mínútum sem hann spilaði í leiknum og önnur þrenna kappans í vetur lítur því dagsins ljós í jafn mörgum leikjum. Fróðlegt verður því að fylgjast með næsta leik hans og hvort hann haldi uppteknum hætti.
Punktar:
Heimavöllur Grindavíkur, Röstin, heitir núna Mustad höllin.
Leikmaður Grindavíkur, Jón Axel Guðmundsson, skilaði þrennu (24/10/11) annan leikinn í röð.
Skotnýting Grindavíkur var 46% (29/63) á móti 31% (26/82) hjá Hetti.
Höttur tók 47 fráköst á móti 44 hjá Grindavík.
Grindavík gaf 21 stoðsendingu í leiknum á móti 10 hjá Hetti.
Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson þjálfara eftir leik
Viðtal og mæling á þrennukóngnum eftir leik