Úrslitakeppnin í körfuboltanum hefst fimmtudaginn 29. mars nk. þegar Grindavík tekur á móti Njarðvík. Körfuknattleiksdeildin gefur út veglega leikskrá sem verður dreift í öll hús í vikunni. Þar er meðal annars viðtal við Helga Jónas Guðfinnsson, þjálfara Grindavíkurliðsins.
„Ég er mjög mjög sáttur við marga hluti sem við höfum lagt áherslu á og markvisst unnið að í vetur. Það má segja að það felist í þróun á ákveðinni liðsheild sem hefur verið að myndast í allan vetur. Við höfum unnið í flóknum sóknarleik með áherslu á þríhyrningssókn þar sem menn verða síðan að lesa hvert sendingin fer til að átta sig á því hver næsti valmöguleiki er. Við höfum unnið það lengi með varnarleikinn að það hefur verið einfaldara mál. Vissulega kom nokkur lægð undir lok deildarkeppninnar eftir að við tryggðum okkur deildarmeistaratitilinn þegar fjórar umferðir voru eftir. Það var í sjálfu sér ekkert óðeðilegt,” segir Helgi Jónas.
Óhætt er að segja að Grindavík hafi verið heppið með útlenda leikmenn í ár. J’Nathan Bullock, sem er 194 sm á hæð og 100 kg, er stigahæstur með 21,5 stig að meðaltali í leik. Hann er jafnframt frákastahæstur með 10 fráköst í leik enda er þessi leikmaður eins og naut á vellinum. Giordan Watson sem er 178 sm á hæð og 80 kg er næst stigahæstur með 18,2 stig að meðaltali í leik og 6,4 stoðsendingar í leik. Síðan bættist Ryan Pettinella óvænt við en hann hefur smám saman verið að koma sér í form.
„Við höfum verið lánsamir með útlendingana miðað við í fyrra. Þetta er alveg svart og hvítt. Það skiptir miklu máli fyrir liðsbraginn að þurfa ekki að vera að skipta þeim út á miðju tímabili því það er erfitt að koma nýjum leikmanni í sóknarleikinn. Ryan var svo algjör bónus og hefur hjálpað til að leysa Sigurð af hólmi undir körfunni,” segir Helgi Jónas.
Bræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir hafa haft sig óvenju lítið í frammi í vetur miðað við oft áður. Þorleifur hefur spilað að meðltali tæpar 19 mínútur í leik og skoraði 6,8 stig. Ólafur hefur spilað 3 mínútum meira að meðaltali og skoraði 7 stig.
„Við erum einfaldlega með mun breiðari hóp en í fyrra. Menn fá ekki þær mínútur sem þeir eiga fá eða eru vanir að fá. Leikmenn sem spiluðu tæpar 30 mínútur í fyrra eru kannski að fá 15-20 mínútur núna. Þegar hópurinn er svona djúpur og menn eru ekki tilbúnir til þess að leggja sig fram eða standa sig ekki fær einfaldlega næsti maður tækifæri. Það eru gerðar miklar kröfur til leikmanna,” segir Helgi Jónas.
Viðtalið í heild sinni má lesa í leikskránni.