Verður Ingibjörg sannspá?

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Ingibjörg Jakobsdóttir, leikmaður Grindavíkur í körfubolta spáir í leikina sem fram fara í kvöld í efstu deild kvennakörfunnar, en frá þessu greinir vefurinn Karfan.is. Þar kemur fram að í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verði fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhverjir allt aðrir. Ingibjörg er hefur t.a.m. leikið í efstu deild með liði Grindavíkur og Keflavíkur og íslenska landsliðinu. Í spá sinni fyrir vefinn viðurkennir Ingibjörg að Keflavíkurpúkinn eigi altaf sinn stað innra með henni og að hún haldi með Keflavík ef hún sé ekki að spila á móti þeim. 

Hér fyrir neðan má sjá spá Ingibjargar og verður áhugavert að fylgjast með síðar í kvöld hversu sannspá hún verður. Hún spáir Val, Keflavík, Sjörnunni og Haukum sigri. ***Uppfært 24. janúar: Ingibjörg var með allt rétt. 

Valur – KR

Geggjaður Reykjavíkur slagur. Bæði lið með afgerandi leiðtoga Helenu og Kiana sem að eru að skila 20+ stigum í nánast hverjum leik þannig að ég býst við að þær haldi því áfram þá fer þetta svoldið eftir því hvort að þær fái framlag frá fleirrum. Ég tel Valsliðið mun líklegra til gera það því að þær eru búnar að vera á góðri sigurgöngu og ættu að vera með sjálfstraustið í botni.

Þessi endar Valsmegin í hörkuleik – Valur vinnur með 3 stigum

Keflavík – Skallagrímur

Ég verð nú að viðurkenna að það er alltaf eitthver lítill Keflavíkurpúki sem býr innra með mér eftir að ég spilaði með þeim og ég held alltaf með þeim innst inni ef ég er ekki að spila á móti þeim eða mitt lið.

Brittany er búin að vera ruddaleg í allan vetur á öllum vígstöðum hvort sem að það eru stoðsendingar, fráköst eða stig og hún virðist ekkert vera að hætta! En hinsvegar þurfa aðrir leikmenn aðeins að fara að stíga upp fyrir restina af vetrinum ef að þær ætla að reyna að landa titli með vorinu.

Skallagrímur er ekki að heilla mig með 4 erlenda leikmenn innanborðs sem spila 30+ mín í hverjum leik og ég held að það verði sjaldan vænlegt til vinnings í þessari deild.

Þanni að ég segi 15-20 stiga sigur Keflavíkur

Stjarnan – Snæfell

Stanrnan er búin að vera á svakalegri siglingu uppá síðkastið. Það sem að er svo skemmtilegt við það er að auðvitað er Danielle búin að vera frábær, en íslensku leikmennirnir hjá þeim eru að stíga upp og setja punktinn yfir i-ið.

Bríet búin að vera svakalega flott í síðustu leikjum og Ragna Margrét að koma inn í þetta aftur eftir meiðsli sem er rosalega jákvætt fyrir þær.

Hins vegar þá eru Snæfell búnar að vera að missa aðeins út úr sínu liði sem að ég hef svo sem engar stórar áhyggjur ef að systurnar spila eins og englar.

En vegna þess á hversu mikilli siglingu Stjarnan er búin að vera á og þær eru á heimavelli þá ætla ég að spá þeim spennusigri – Stjarnan vinnur með 2 stigum.

Breiðablik – Haukar

Haukar taka þennan leik sannfærandi – Lele Hardy og Þóra eru held ég of stór biti fyrir Breiðablik á þessum tímapunkti. Ólöf Helga og hennar her er að vinna í því að koma sér ofar á töflunni og myndi þessi leikur hjálpa þeim ansi mikið í því. Ég er sannfærð um að þær klári þennan með 15-20 stigum og komi sér upp við hlið Skallagríms í deildinni.