Vel gert strákar! Sannfærandi sigur í fyrsta leik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík hafði betur gegn Njarðvík 94-67 í fyrsta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik í Grindavík í gærkvöld og eins og tölurnar bera með sér var sigurinn sannfærandi og sanngjarn. Grindavík hafði fjórtán stiga forystu í hálfleik, 46-32, og hafði yfirburði á flestum sviðum íþróttarinnar frá upphafi til enda.

 

Ónefndur fyrrverandi leikmaður körfuboltaliðs Njarðvíkur orðaði það svo skömmu áður en flautað var til leiks Grindavíkur og Njarðvíkur í Röstinni í Grindavík í kvöld að líklegra væri að loftsteinn skylli á húsinu en að þeir grænklæddu færu með sigur af hólmi eins og það er skemmtilega orðað á sport.is. Fljótlega eftir að flautað var til leiks kom í ljós að mat hans á stöðunni var hárrétt. Njarðvíkingar stóðu í heimamönnum á allra fyrstu mínútunum, mættu til leiks í fyrsta sinn í býsna langan tíma með fullskipað lið, en um miðjan fyrsta leikhlutann höfðu gæðamunurinn og breiddin þau áhrif að sundur dró með liðunum. Grindavíkurliðið svakalega vel skipað, sóknarmöguleikarnir eru nánast óþrjótandi og þeim gulklæddu leiðist ekkert að spila árásargjarna og sterka vörn. Grindavík náði tíu stiga forystu áður en fyrsti leikhlutinn var úti og sá munur hélst á liðunum fram í síðari hálfleikinn. Njarðvíkingar gerðu margt ágætlega, en náðu þó ekki að keyra almennilega á sínar sterkustu hliðar og einu sinni sem oftar vekur það svolitla furðu að þeir skuli ekki leggja meiri áherslu á að keyra kerfi sem tryggja það að Cameron Echols nýti sóknarhæfileika sína betur. Staðan í hálfleik var 46-32 fyrir heimamenn og nokkuð ljóst að stór hluti leikmannahóps heimamanna þyrfti að standa upp og fara heim til þess að Njarðvíkingar eygðu von.

Grindvíkingar voru í ágætum takti í síðari hálfleik, slógu hvergi slöku við, létu Njarðvíkinga vinna hörðum höndum fyrir hverju einasta stigi og refsuðu fyrir minnstu mistök. Stóra spurningin var í rauninni sú hvort þeir næðu að halda dampi út leikinn og það reynist þeim alla jafna tiltölulegea auðsótt þar sem mannvalið er ógurlegt og skiptimöguleikarnir óþrjótandi. Grindvíkingar rúlluðu vel á mannskapnum og það skiptir litlu hvaða leikmenn eru inni á vellinum hverju sinni, sóknarlega ógna þeir bæði inni á teig og fyrir utan og slaka nákvæmlega ekkert á í vörninni. Grindvíkingar sigldu í höfn afar sannfærandi og sanngjörnum sigri í þessum fyrsta leik einvígisins, 94-67, og í fljótu bragði verður ekki séð annað en að þeir klári rimmuna í tveimur leikjum.

Grindavík: J’Nathan Bullock 19/10 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 17/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 13/4 fráköst, Ryan Pettinella 10, Giordan Watson 9/12 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 9/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7/6 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4, Ólafur Ólafsson 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 2.

Njarðvík: Travis Holmes 20/5 fráköst, Cameron Echols 18/4 fráköst, Elvar Már Friðriksson 9, Páll Kristinsson 8/7 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 3, Hjörtur Hrafn Einarsson 3, Jens Valgeir Óskarsson 2, Maciej Stanislav Baginski 2, Oddur Birnir Pétursson 2/5 fráköst.

 

Grindavík – Njarðvík (29-19, 17-13, 27-20, 21-15)

Myndir: Snorri S.