Tvö víti, eitt mark og jafntefli niðurstaðan á Selfossi

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Strákarnir í meistaraflokki karla fóru í ferðalag austur fyrir fjall á föstudaginn og freistuðu þess að sækja sinn fyrsta sigur frá upphafi á Selfoss. Það tókst ekki í þetta sinn en lokatölur leiksins urðu 1-1. Tomislav Misura skoraði mark okkar manna úr víti en brást svo bogalistin skömmu seinna þegar Grindvíkingar fengu annað víti. Grindvíkingar fengu nokkra sénsa til að klára leikinn en náðu ekki að nýta færin og því fór sem fór.

Dómari leiksins, Valgeir Valgeirsson, var ansi áberandi í leiknum en leikurinn fékk lítið að fljóta og Valgeir var flautandi meira og minna allan leikinn. Alls fóru 8 gul spjöld á loft í leiknum og þar af eitt sem leiddi af sér brottrekstur.

Grindvíkingar eru því með 4 stig í deildinni eftir jafn marga leiki og sitja nú í 9. sæti. Næsti leikur okkar manna er heimaleikur gegn Þrótturum mánudaginn 8. júní.

Mynd: Fótbolti.net