Tveir bikarmeistaratitlar í hús um helgina

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Bikarúrslitahelgi KKÍ fór fram um helgina. Meistaraflokkarnir spiluðu á laugardegi en yngri flokkarnir spiluðu á föstudegi og sunnudegi. Það var því mikil körfuboltaveisla um helgina og tókum við Grindvíkingar virkan þátt í þessari veislu. Félagið átti fjögur lið í úrslitum í ár sem er frábær árangur. Meistaraflokkur kvenna, 9. og 10. flokkur kvenna og unglingaflokkur karla léku öll úrslitaleiki um helgina og lönduðu stelpurnar í 9. og 10. flokki titlunum. 

Unglingaflokkur karla töpuðu í framlengdum leik gegn Haukum í einum af svakalegustu bikarleikjum sem spilaður hefur verið í yngri flokkum síðustu ár. Strákarnir voru frábærir í fyrri hálfleik og leiddu 59-33 þegar flautað var til hálfleiks. Strákarnir létu þristunum rigna í fyrri hálfleik og var Nökkvi Már nánast sjálfvirkur í hornunum, en hann setti 5 þrista í leiknum.

Seinni hálfleikurinn var ekki eins glæsilegur og villuvandræði lykilmanna vógu þungt í lokin. Jón Axel Guðmundsson var nálægt þrennunni frægu með 13 stig, 15 fráköst og 9 stoðsendingar en hann klárað ekki leikinn þar sem hann fékk sína fimmtu villu í 4. leikhluta. Kristófer Breki átti mjög góðan dag, skilaði 18 stigum, 7 fráköstum auk þess að spila vörn á besta leikmann Haukana.

9. flokkur kvenna sigraði Njarðvík í spennandi leik 46-41 og tryggði sér þar með bikarmeistaratitilinn. Grindavík var yfir nánast allan leikinn en Njarðvíkurstelpur voru aldrei langt undan. Ólöf Rún Óladóttir var valin maður leiksins eftir frábæra framistöðu. Hún skilaði 23 stigum og 9 fráköstum. Ólöf hitti úr fjórum af sex þriggja stiga skotum sínum sem er frábær nýting í öllum flokkum hvað þá í 9.fl kvenna. Elísabet María Magnúsdóttir átti einnig mjög góðan leik með 8 stig og 13 fráköst. Una Rós Unnarsdóttir kom einnig frábærlega inní leikinn þrátt fyrir að vera ári yngri en flestar stelpurnar, var algjörlega óhrædd og skilaði 8 stigum. Styrkleiki þessa liðs er varnaleikur og barátta og hefur það skilað stelpunum langt enda eru stelpurnar nú ríkjandi íslands og bikarmeistarar

Myndir frá karfan.is

10. flokkur kvenna sigraði KR í úrslitaleik á sunnudaginn. Stelpurnar byrjuðu mun betur og komust mest tólf stigum yfir í fyrsta leikhluta þar sem Hrund Skúladóttir var allt í öllu og skilaði 14 stigum í leikhlutanum. KR stelpur hertu vörnina og komust fimm stigum yfir í þriðja leikhluta. Stelpurnar eru vanar jöfnum og spennandi leikjum og héldu ró sinni allan tímann. Stelpurnar sigu fram úr í fjórða leikhluta og er hægt að þakka sóknarfráköstum og frábærri vörn fyrir. Sigrún Elfa Ágústsdóttir var valin maður leiksins en hún skilaði 22 stigum og 17 fráköstum auk þess að vera með frábæra skotnýtingu. Sigrún Elfa er frá Þorlákshöfn en hún skipti yfir í Grindavík um jólin og er mikill happafengur fyrir félagið. Vonandi eiga Grindvíkingar eftir að sjá meira frá henni í komandi framtíð. Hrund Skúladóttir var traust að vanda með 15 stig og 9 fráköst en KR stelpur lögðu mikið kapp á að stoppa hana eftir frábæran fyrsta leikhluta hjá henni. Stelpurnar í 10. flokki eru því tvöfaldir bikarmeistarar en þær sigruðu 9.flokkinn í fyrra.

Myndir frá karfan.is

Grindvíkingar mega vera stoltir af þessum frábæra árangri enda engan veginn sjálfgefið að eiga fjögur lið í bikarúrslitum sama árið. Það er ljóst að það er mikill efniviður í grindvískum körfubolta og vonandi munum við sjá sem flesta af þessum leikmönnum á stóra sviðinu á komandi árum.