Tveggja turna tal hjá Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurstúlkur halda áfram á beinu brautinni í Dominosdeild kvenna en í gær unnu þær mjög sannfærandi sigur á kanalausu liði KR, 47-71. Þær Rachel Tecca og María Ben voru mjög atkvæðamiklar í liði Grindvíkinga og fyrirsögn karfan.is var nokkuð fyrirsjáanleg en vissulega sönn; ,,Tveggja turna tal”, en þær stöllur hreinlega áttu teiginn í gær.

Við endurbirtum hér með góðfúslegu leyfi umfjöllun karfan.is um leikinn í gær og minnum um leið á leikinn hjá strákunum í kvöld en þeir sækja Stjörnuna heim í kvöld:

,,Kanalausar KR konur tóku á móti Sverri Þór Sverrissyni og lærimeyjum hans úr Grindavíkinni í kvöld. Þær röndóttu voru að sjálfsögðu hungraðar í sinn fyrsta sigur en vitað var að við ramman reip yrði að draga þar sem KR er án síns ágæta erlenda leikmanns Brittnay Wilson sem sleit hásin og er flogin til síns heima. Munar um minna hjá KR stúlkum enda ekki með dýpsta bekkinn í boltanum.

KR stúlkur virtust gera sér grein fyrir að þær þyrftu að stíga upp á annað level í baráttu og ákveðni til þess að fá eitthvað út úr þessum leik. Þær mættu mjög ákveðnar til leiks og gáfu sig alla í verkefnið sem fyrir höndum var. Grimmur varnarleikur virtist einnig vera dagsskipunin hjá Sverri Þór og einkenndust upphafsmínútur af baráttu, stressi og þreifingum hjá báðum liðum. Sóknir voru hraðar og leikmenn óhræddir við að keyra upp að körfunni með misjöfnum árangri en fyrsta karfan kom ekki fyrr en um 2 mínútur voru liðnar af leiknum er KR-ingurinn Sara Mjöll afgreiddi snyrtilegt sniðskot. Bæði lið voru að spila grimma maður á mann vörn að manni fannst um allan völl og skiptust á að skora. Bergþóra var að spila kvenna best hjá KR stúlkum í leikhlutanum og keyrði grimmt á körfuna ásamt því að setja einn þrist. María Ben stóð upp úr hjá Grindvíkingum en lítið hafði borið á erlendum leikmanni þeirra gulklæddu, Rachel Tecca sem hafði farið mikinn fyrir þær í síðustu leikjum. Jafnt var á öllum tölum þar til um 2 mínútur voru eftir en þá átti Aníta Eva góða innkomu og setti 2 körfur, þ.á.m. ískaldan þrist í lokin og reif þannig KR-inga 5 stigum frá Grindavík.

Ekki veit ég hvort að KR-stúlkur hafi fengið sér stóran Vesturbæjarís á milli leikhluta en skemmst er frá því að segja að leikur þeirra gjörsamlega hrundi á þessum tímapunkti. Grjótharðir Grindvíkingar settu í annan gír og spiluðu svakalega pressuvörn um allan völl sem gerði það að verkum að mikið fát kom á KR sem áttu hverja feilsendinguna á fætur annarri sem og tapaðir boltar út í eitt. Ekki var á það bætandi fyrir KR-stúlkur að risinn Rachel vaknaði af værum blundi og setti 13 stig fyrir Grindavík í leikhlutanum ásamt því að rífa niður fráköstin á báðum endum vallarins. Andleysið var algjört og segir það sem segja þarf að KR var einungis búið að skora 1 körfu þegar hálf mínúta var eftir af leikhlutanum en náðu aðeins að bjarga andlitinu áður en blásið var til hálfleiks. Grindavík hafði unnið leikhlutann 25:8 og þar með komið sér í 12 stiga þægilega forystu.

Þriðji leikhluti byrjaði með sterkri körfu frá Bergþóru Holton fyrir KR sem hafði horfið í 2.leikhluta eftir að sýnt af sér góðan þokka þokka í þeim fyrsta. Héldu þá sumir vongóðir KR-ingar að nú myndu þær röndóttu koma með áhlaup en Grindavík var aldeilis ekki á því . Þær gulu héldu dampi í sinni grimmu pressuvörn um allan völl með Pálínu í broddi fylkingar sem límdi sig svo fast á hinn annars ágæta leikstjórnanda KR, Björgu Einars, að það kæmi ekki nokkrum manni á óvart ef þær væru fastar saman enn. Baráttan hélt áfram og fóru turnarnir tveir í liði Grindavíkur mikinn (María og Rachel) sem skoruðu grimmt og rifu niður fráköstin eins og þau væri jólaskraut í janúar. Grindvíkingar juku muninn enn og var hann nú orðinn 17 stig fyrir síðasta leikhluta.

KR stúlkur sem höfðu verið í maður á mann vörn allan leikinn og voru orðnar að því virtist örþreyttar, skiptu nú yfir í svæðisvörn og ætluðu að freista þess að hægja á Grindvíkingum. Eitthvað hægðist á þeim gulu en lítið bensín var á KR tanknum til þess að sækja á og sigldu Grindvíkingar sigrinum þægilega í heimahöfn.

Um var að ræða tveggja turna tal hjá Grindvíkingum en Rachel splæsti í tröllatvennu með 18 stig og hvorki meira né minna en 19 fráköst. Hinn turninn, María Ben skoraði einnig 18 stig og átti mjög gott kvöld. Einnig verður að minnast á þátt Pálínu en hún spilaði afar góða vörn ásamt því að taka 8 fráköst og skora þar að auki 10 stig þó svo nýtingin hafi ekki verið upp á marga fiska. (1/10 í þriggja)

KR konur áttu almennt ekki góðan dag og erfitt að taka einhvern út þar. Þó ber að nefna Bergþóru sem að leiddi stigaskorið hjá KR sýndi góða baráttu á köflum. Hin Snæfellsættaða Björg Einars kom í kjölfar Bergþóru hvað stigaskorun varðar og sýndi góða takta þá sjaldan sem hún losnaði úr gjörgæslu Grindvíkinga.

Sigurinn sannarlega verðskuldaður hjá Grindvíkingum og sitja nú kanalausar KR konur enn í kjallara Dominosdeildarinnar án sigurs en Grindavík komið á toppinn ásamt fimm öðrum liðum. KR á mikið inni en það er morgunljóst að eitt stykki erlendendan leikmann þarf að panta í póstnúmer 107 ef ekki á illa að fara.”

Þorbjörn Geir Ólafsson fyrir karfan.is