Þjálfari Grindvíkinga, Sverrir Þór Sverrisson, var auðmjúkur eftir bikarúrslitaleikinn í Laugardalshöll enda ekki annað hægt eftir að hafa tapað fyrir betra liði.
,,Við vorum slakir. Auðvitað komu menn til leiks og ætluðu sér að spila sinn besta leik. En við lentum í hælunum í vörninni og hittum afleitlega. Stjarnan hitti á frábæran leik og við töpuðum fyrir betra liði í dag,” sagði Sverrir við Vísi.
,,Því miður fór þetta svona. Það hefur gengið vel hjá okkur í vetur og leiðinlegt að spila illa í svona mikilvægum leik. Það er óafsakanlegt gagnvart stuðningsmönnunum sem eru að mæta. Svona eru íþróttirnar. Það geta ekki allir gert það sem þeir ætla sér.”
,,Stjarnan er með eitt albesta liðið í deildinni. Þetta er hörkulið og það hefði verið gríðarlegt afrek hefðum við unnið þá í dag.”