Tíu öflugir ungir íþróttamenn fengu hvatningarverðlaun UMFG 2016

Sund Fimleikar, Íþróttafréttir, Judó, Knattspyrna, Körfubolti, Sund

Um leið og við útnefndum og verðlaunuðum okkar besta íþróttafólk núna á gamlársdag, þá fengu tíu efnilegir ungir íþróttamenn einnig viðurkenningar sem kallast Hvatningarverðlaun UMFG. Hér að neðan má lesa textana sem fylgdu þeirra tilnefningum. Við óskum þessum efnilegu krökkum til hamingju með verðlaunin.

Angela Björg Steingrímsdóttir – körfuknattleiksdeild

Angela Björg er afar samviskusöm og dugleg, leggur sig alla fram við að gera sitt besta á æfingum og tekur leiðsögn vel. Angela Björg hefur margt sem prýðir mjög góðan leikmann, hún er lykilmaður í sínum aldursflokki og hefur verið nálægt því að fá hlutverk með meistaraflokki. Hún hefur einnig verið nálægt því að komast í landsliðið í sínum flokki og ef hún heldur áfram af fullum krafti mun hún verða bæði landsliðsmaður og leikmaður meistaraflokks kvenna næstu árin.

Guðmundur Ásgeir Sigurfinnsson – hjólreiðanefnd

Guðmundur Ásgeir hefur æft hjólreiðar í bráðum tvö ár. Framfarirnar eru gríðarlegar og hann stendur jafnöldrum sínum innanlands fyllilega á sporði. Guðmundur Ásgeir er þeim sem á eftir hafa komið mikil fyrirmynd. Þátttaka Guðmundar í keppnum hefur verið talsverð, m.a tvisvar sinnum í WOW cyclothon, Bláa lóns þrautinni og fleiri keppnum. Þar hefur hann verið fremstur meðal jafningja og mikill félagi. 

Guðmundur Ásgeir keppti fyrir hönd UMFG árið 2016. Hann var í fyrsta sæti í sínum aldursflokki í öllum þeim keppnum sem hann tók þátt í á árinu. Þess má geta að hann var í 2. sæti af öllum sem tóku þátt í KIA Bronshringnum 48 km keppni.

Hulda Björk Ólafsdóttir – fimleikadeild

Hulda Björk mætir samviskusamlega á æfingar og hefur ótrúlegan styrk og úthald sem nýtist henni afar vel í íþróttinni. Hulda er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur deildarinnar og erum við afar stolt af því að hafa svona flotta fimleikakonu í deildinni okkar.

Hulda Björk er ein af efnilegustu iðkendum sem fimleikadeildin hefur haft og hefur hún alla burði til þess að ná langt í sinni íþrótt. Hún er með metnaðinn á réttum stað, alltaf tilbúin að læra nýja hluti og er óhrædd við að reyna en það er akkúrat það sem góður fimleikamaður þarf að hafa.

Hún hefur sýnt miklar framfarir á sviði nýrra stökka á æfingum og stóð sig með prýði á þeim æfingum sem við sóttum í vetur við Akademíu Keflavíkur. Við hlökkum til að fylgjast með Huldu Björk í framtíðinni þar sem henni eru allir vegir færir.

Jakob Máni Jónsson – hestamannafélagið Brimfaxi

Jakob Máni er mikil fyrirmynd annarra, jákvæður og skemmtilegur. Jakob Máni er virkur félagsmaður sem tekur þátt í öllu því sem félagið hefur uppá að bjóða.

Jón Grímsson – sunddeild

Jón er metnaðarfullur og er mjög góð fyrirmynd bæði í lauginni og utan hennar. Jón er mjög samviskusamur og duglegur og fer ætíð eftir fyrirmælum. Hann stundar íþróttina af kappi, mætir vel og hefur staðið sig mjög vel á þeim mótum sem hann hefur keppt á. Jón hefur alla burði til að ná langt í sundinu.

Katla Sif Gylfadóttir – hjólareiðanefnd

Katla Sif er frábær íþróttamaður og hefur stundað hjólreiðar í bráðum tvö ár. Þrátt fyrir ýmsar hindranir eins og hnémeiðsli og fleira hefur Katla Sif tekið stórstígum framförum, það miklum að eftir er tekið víðar en í Grindavík. Katla hefur tvisvar sinnum tekið þátt í WOW cyclothon auk fleiri keppna, en þegar meiðsli hafa komið í veg fyrir þátttöku hefur hún mætt sem liðsstjóri og hvatt félaga sína áfram.

Kristín Anítudóttir McMillan – knattspyrnudeild

Kristín er metnaðarfullur íþróttamaður, sem stundar íþrótt sína af miklu kappi og mun ná langt með sama áframhaldi. Kristín er góð fyrirmynd yngri iðkenda og var valin efnilegasti leikmaður tímabilsins 2016 hjá m.fl. kvenna.

Þrátt fyrir ungan aldur er Kristín mikilvægur hlekkur í kvennaliði m.fl kvenna og var valin á úrtaksæfingar hjá U17 landsliðinu. Kristín hefur tekið þátt í starfi félagsins og dæmdi ófáa leiki hjá yngri flokkunum í sumar.

Leon Ingi Stefánsson – körfuknattleiksdeild

Leon Ingi leggur sig alltaf allan fram, er mjög kurteis og tekur vel leiðsögn þjálfara. Leon Ingi er duglegur að æfa, kemur oft áður en í tíma áður en æfingar hefjast til þess að drippla og gera sig tilbúinn. Þá er hann einnig duglegur í ræktinni sem hjálpar honum í körfunni.

Sigurjón Rúnarsson – knattspyrnudeild

Sigurjón er fyrirmynd og mikil hvatning fyrir unga iðkendur innan vallar sem utan. Rólegt yfirbragð Sigurjóns er einkenni sem allir taka eftir. Hann stundar sínar æfingar af kappi og tekur þátt í því sem verið er að gera hverju sinni, til dæmis dómgæslu og þjálfun hjá yngri flokkum félagsins. Hann hefur þroskast á afar jákvæðan hátt og sýnir aukið sjálfstæði og hefur sýnt miklar framfarir á öllum sviðum. Í sumar var hann valinn á úrtaksæfingar hjá undir 17 ára landsliðinu. Nú á haustdögum hefur Sigurjón verið að æfa og spila með meistaraflokki félagsins.

Tinna Hrönn Einarsdóttir – júdódeild

Tinna Hrönn er frábær fyrirmynd bæði innan vallar sem utan, samviskusöm og dugleg.

Tinna Hrönn er eitt mesta efni í júdó sem komið hefur fram á síðustu árum. Hún hefur ekki tapað glímu í sínum flokki, ekki heldur þegar hún keppir í drengjaflokki. Hún hefur unnið öll þau mót sem hægt er að vinna á árinu, Íslandsmót, haust og vormót JSÍ, afmælismót og mörg fleiri mót. Tinna Hrönn er jafnframt stigahæsti judokappi Íslands.