Titillinn blasir við – Er 16 ár bið á enda?

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Er 16 ára bið Grindavíkur eftir Íslandsmeistaratitlinum brátt á enda? Eftir 15 stiga sigur Grindavíkur á Þór í Þorlákshöfn í kvöld getur Grindavík tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta með sigri í þriðju rimmu liðanna næsta sunnudagskvöld. Eins og Grindavík spilaði í kvöld virðist fátt geta komið í veg fyrir það.

Leikirnir í úrslitarimmu Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik eru taumlaus skemmtun. Það er staðfest. Uppskriftin býður hreinlega ekki upp á annað, tvö frábær en að mörgu leyti ólík körfuboltalið, barátta og barningur og óviðjafnanleg stemmning á pöllunum.

Leikurinn í Þorlákshöfn í kvöld, annar leikur Þórsara og Grindvíkinga í baráttunni um þann stóra, var eins og vel útsett tónverk, fullt af áhugaverðum og spennandi hlutum að gerast úti um allan völl. Jafnræði var með liðunum allan fyrsta leikhlutann og staðan að honum loknum var 17-15 fyrir gestina, frákastabaráttan sérlega áhugaverð en sóknarnýtingin kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ekki er svo sem við því að búast í ljósi þess að baráttan er hrikaleg, menn fá nákvæmlega ekkert pláss og engan tíma til að athafna sig. Grindvíkingar hata það ekkert að keyra inn í teiginn, þar sem þeir eiga fleiri valmöguleika heldur en Þorlákshafnarbúar, en þeir vörðu teiginn sinn líka með ágætum. Snemma í öðrum leikhluta, þegar staðan var 22-20 fyrir Grindvíkinga, höfðu aðeins tveir Þórsarar skorað með tveggja stiga skoti og tveggja stiga skotnýtingin var döpur; þrjú skot af tólf höfðu ratað rétta leið. Grindvíkingar náðu betri og betri tökum á leiknum eftir því sem á leið og nýttu sér það að Darrin Govens var fjarri sínu besta. Reyndar virtist um tíma sem heimamenn léku enn í myrkrinu sem skall á í leikmannakynningunni, gestirnir virtust hafa fleiri ráð og lausnir og þegar flautað var til hálfleiks höfðu þeir tíu stiga forystu, 40-30.

Þórsarar hófu síðari hálfleikinn af ógurlegum krafti, skoruðu tólf fyrstu stigin í síðari hálfleik og komust yfir, 42-40. Þá áttuðu Grindvíkingar sig á því að síðari hálfleikurinn var hafinn og tóku völdin meira og minna í sínar hendur. J´Nathan Bullock fór þar fremstur í flokki, dyggilega studdur reyndar af Þorleifi Ólafssyni sem átti ljómandi góðan leik, og breiddin og getan hjá Grindvíkiingum er þessleg að þeir finna lítið fyrir því þótt leikstjórnandinn Giordan Watson hafi sig hægan. Þórsarar eru viðkvæmari fyrir frávikum og þá munar um það þegar kappar eins og Darri Hilmarsson geta ekki beitt sér að fullu. Gestirnir náðu aftur tíiu stiga forystu, keyrðu þolinmóðir á sínar sterkustu hliðar og voru einmitt tíu stigum yfir þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst, 58-48.

Þórsarar hafa hingað til í vetur forðast það að bogna og brotna við mótlæti, þeir hafa hvað eftir annað snúið vonlítilli stöðu sér í vil á ögurstundu, en að þessu var gæðamunurinn einfaldlega slíkur að verkið var ómögulegt. Þeir verða þó seint sakaðir um að leggja árar í bát, þeir börðust og reyndu að finna hinn ágæta takt góðra verka. Enginn leikur hins vegar betur en andstæðingurinn leyfir og Grindvíkingar voru mættir í bæinn til að sækja sigur. Það tókst þeim með nokkuð sannfærandi hætti 79-64 og þegar allt kemur til alls var sigurinn í raun aldrei í hættu.

Grindvíkingar sýndu mátt sinn og megin í þessum leik, voru einfaldlega sterkari aðilinn og uppskáru eins og þeir sáðu. J´Nathan Bullock átti stórleik á báðum endum vallarins, sallaði niður skotum í öllum regnbogans litum, reif niður fráköst og spilaði vörn eins og sá sem valdið hefur. Þorleifur var frábær, skoraði grimmt og var afar skynsamur í öllum sínum aðgerðum, Jóhann Árni var öflugur en er stundum ansi spar á skotið sitt og menn eins og Sigurður Þorsteinsson og Páll Axel Vilbergsson lögðu þung lóð á vogarskálarnar. Liðsheildin hjá Grindavík er gríðarlega sterk og framlag hvers og eins er dýrmætt.
Þórsarar mættu ofjörlum sínum í þessum leik og líklega í þessari rimmu, sem verður með styttra móti ef svo heldur fram sem horfir. Þórsarar geta gert ljómandi fína hluti þegar þeir eru allir á sömu blaðsíðunni, treysta má á þekktar stærðir og stemmningin rétt stillt. Slíku var ekki að fagna í kvöld, Govens verður að vera skynsamari, Guðmundur Jónsson verður að skora meira – eins og hann hefur margsannað að hann getur – og baráttan verður að vera samstilltari. – Sport.is

Grindavík: J’Nathan Bullock 27/9 fráköst, Þorleifur Ólafsson 16/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 11/6 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 9/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/4 fráköst, Ryan Pettinella 5/4 fráköst, Giordan Watson 2/6 fráköst/7 stoðsendingar.

Þór 64-79 Grindavík (15-17, 15-23, 18-18, 16-21)

Mynd: Sport.is