Tilhlökkun að mæta KR í 16- liða úrslitum bikarsins

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

KR fær Grindavík í heimsókn í 16-liða úrslitum Powerade bikarkeppni Körfuknattleikssambands Íslands í kvöld klukkan 19:15. Þetta er síðasti leikurinn á þessu stigi keppninnar en þetta eru liðin sem mættust í úrslitaleiknum í fyrra. Þá höfðu KR-ingar betur þegar þeir unnu í Laugardalshöllinni áður en þeir lyftu svo Íslandsmeistaratitlinum einnig í lok leiktíðar í fyrra. Grindvíkingar eiga því harma að hefna.

 

„Þessi leikur leggst vel í mig, það er tilhlökkun fyrir honum. Það er leiðinlegt að annað liðið þurfi að detta út svona snemma en þetta verður hörkufjör í DHL-höllinni,” sagði Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindavíkur við Morgunblaðið.

Þegar liðin áttust við á sama velli í úrvalsdeildinni í lok nóvember höfðu Grindvíkingar betur og héldu KR-ingum undir 60 stigum. Helgi Jónas segir þó að hans menn séu að mæta öðru KR liði í dag. „Þeir koma með breytt lið til leiks og því spennandi að sjá hvar við stöndum. Það verður krefjandi verkefni fyrir okkur en jafnframt spennandi.”

Helgi sagði bikarkeppnina mikilvæga fyrir öll lið og ekki síður fyrir Grindavík sem hefur verið nálægt því undanfarin ár að vinna keppnina. „Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur þar sem öll lið vilja komast í höllina. Við höfum komist þangað síðustu tvö ár en farið í bæði skiptin tómhentir út. Við viljum fá þriðja sénsinn til að vinna.”

Spurður hvort úrslit síðustu bikarleikja hafi einhver áhrif á leikmenn liðsins sagði Helgi svo ekki vera. „Við tökum bara hvern leik fyrir sig og hugsum ekkert út í það. KR er næsta verkefni sem við þurfum að leysa.”

Helgi sagði björninn ekki unninn þótt liðið næði að slá KR út, enda sterk lið eins og Snæfell, Keflavík, Njarðvík og fleiri eftir í pottinum.