Tilhlökkun að mæta gömlum lærisveinum

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Bikarúrslitaleikur Grindavíkur og ÍR í Laugardalshöllinni næsta laugardag verður nokkuð sérstakur fyrir Ómar Örn Sævarsson leikmann Grindavíkur. Hann mætir þar sínum gömlu félögum í ÍR þar sem hann ólst upp og spilaði lengst af og varð bikarmeistari 2007. Hann hefur hins vegar tapað þremur bikarúrslitaleikjum með Grindavík en hampað tveimur Íslandsmeistaratitlum.

Ómar er 32ja ára, tveggja barna faðir og vinnur í móttöku Bláa Lónsins. Hann leikur sína fimmtu leiktíð með Grindavík en fjölskyldan tók þá ákvörðun að flytja suður með sjó þegar honum bauðst að klæðast gula búningnum. 

„Mér líkar mjög vel í Grindavík eins og allri fjölskyldunni. Hér er æðislegt að vera með börn og þetta gæti varla verið betra. Hér er stutt í alla þjónustu og í vinnuna og ég gæti ekki æft svona mikið nema vegna þess að þetta er nánast allt á sama blettinum,” segir Ómar Örn við heimasíðuna.

Fimmti bikarúrslitaleikurinn
Ómar Örn heldur í Laugardalshöllina í fimmta sinn. 2007 var hann einn af lykilmönnum uppeldisfélags síns, ÍR, sem mætti Hamri/Selfossi í mjög spennandi úrslitaleik. ÍR vann 83-81 og hafði undirtökin lengst af í leiknum en Sunnlendingar voru aldrei langt undan og voru lokasekúndurnar æsispennandi.
„Þetta var æðisleg lífsreynsla, að sjá meginþorrann af stuðningsmönnum ÍR saman kominn í Laugardalshöll að hvetja okkur til dáða. Þetta var á 100 ára afmæli ÍR og ég lagði mitt af mörgum, skoraði 10 stig ef ég man rétt og spilaði bara nokkuð vel. Þetta er auðvitað einn stærsti leikur ársins. Auðvitað eru stórir leikir í úrslitakeppninni en þetta er ÚRSLITALEIKURINN,” segir Ómar Örn.

Fram undan er svo slagur við hans gömlu félaga í ÍR. Hvernig leggst það í kappann?

„Það koma upp margar blendnar tilfinningar en þetta er fyrst og fremst bara tilhlökkun. Það er skemmtilegt að spila við gamla félaga og fyrir framan gömlu aðdáendurna. Í ÍR-liðinu eru leikmenn sem ég þjálfaði talsvert hér áður í yngri flokkunum þannig að ég er ansi kunnugur mörgum leikmönnum liðsins, það verður gaman að mæta lærisveinunum. En þrátt fyrir misjafnt gengi liðanna í vetur hefur það ekkert að segja í Laugardalshöllinni. Þetta er bara einn úrslitaleikur þar sem allt getur gerst. Bikarsagan er með ÍR því þeir hafa unnið síðustu tvo bikarúrslitaleiki sína á meðan Grindavík hefur tapað þremur í röð,” segir Ómar Örn.

Það er verðugt rannsóknarverkefni fyrir íþróttasálfræðinga að finna út skýringar á því hvernig lið sem hefur tapað þremur bikarúrslitaleikjum í röð tekst að vinna sig út úr þeirri krísu þegar lagt er í þann fjórða.
„Þetta er ekkert sem við hugsum um. Við erum Íslandsmeistarar síðustu tveggja ár og unnið fleiri stórleiki á þessu tímabili en við höfum tapað. Að komast í bikarúrslitin er reynsla út af fyrir sig. Við erum ekkert stressaðir í sögulegu samhengi. Við höfum ekki farið léttustu leiðina í úrslitaleikinn að þessu sinni og lagt fjögur úrvalsdeildarlið að velli; Val, Keflavík, Njarðvík og Þór. Við verðum því tilbúnir gegn ÍR,” segir Ómar Örn.

Hefðbundinn undirbúningur
Vinsælt er að spyrja íþróttafólk um undirbúning fyrir stórleiki eins og bikarúrslitaleik. Hvernig er það hjá Ómari Erni?
„Ég geri það sama og fyrir alla aðra leiki. Ég hugsa fyrst og fremst um það sem börnin vilja gera og borða og borða með þeim. Ég er löngu hættur að hafa einhverja rútínu fyrir leik. Dagurinn líður miklu hraðar ef ég geri það sama og venjulega.”

Ómar Örn hefur spilað virkilega vel fyrir Grindavík eftir áramót og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum.

„Ég æfði mjög vel yfir hátíðarnar að mér fannst. Sverrir þjálfari sýndi mér meira traust með meiri spilatíma. Ég svaraði með því að spila vel og þá fékk ég stærra hlutverk þannig að þetta urðu snjóboltaáhrif. Þó ég hafi verið lengi í þessu eða ein 13 ár í úrvalsdeild skiptir sjálfstraust miklu máli, þegar vel gengur lyftist sjálfstraustið og frammistaðan verður betri,” segir Ómar Örn.

Hann hvetur stuðningsmenn Grindavíkur til að fjölmenna í Laugardalshöllina og segir að stuðningur þeirra gæti skipt sköpum.