Grindavík gerði sér lítið fyrir og sigraði Stjörnuna í Garðabæ 4-3 í Pepsideild karla í knattspyrnu. Þar sem Fram tapaði á sama tíma fyrir Selfossi er allt opið í spennandi fallbaráttu þessara þriggja liða.
Undirfarin þrjú ár hefur haustið verið tími Grindavíkurliðsins en okkar menn hafa þá bjargað sér frá falli með góðum lokaspretti. Svo virðist sem sagan sé hugsanlega að endurtaka sig fjórða árið í röð. Stjörnumenn komust reyndar í 2-0 en þá tók við ótrúlegur kafli í leiknum. Ian Williamsson minnkaði fljótlega muninn eftir klafs í teignum og Tryggvi Sveinn Bjarnason skoraði síðan sjálfsmark eftir fasta fyrirgjöf frá Pape Mamadou Faye sem reyndist Stjörnumönnum erfiður í kvöld.
Pape kom Grindvíkingum yfir eftir góða stungusendingu frá varamanninum Alex Frey Hilmarssyni og hinn ungi Alex lagði einnig upp fjórða mark Grindvíkinga skömmu síðar þegar hann skallaði boltann niður á Tomi Ameobi sem skoraði af stuttu færi.
Stjörnunni tókst að klóra í bakkann en annar sigur Grindvíkinga í deildinni í sumar staðreynd. Þar með eru Grindvíkingar einungis þremur stigum á eftir Fram en liðið mætir Selfyssingum í miklum fallbaráttuslag næstkomandi mánudag.