Þrjú blaut stig í hús á Grindavíkurvelli

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Grindavík tók á móti botnliði BÍ/Bolungarvíkur á Grindavíkurvelli í gær í leik sem mótaðist mjög af veðrinu. Grindvíkingar gerðu sitt besta til að byggja upp spil og leika áferðarfallega knattspyrnu í þessum leik sem reyndist nokkuð snúið í hvössum vindi og ausandi rigningu. Lítið var um færi og eina mark leiksins kom ekki fyrr en á 78. mínútu þegar hinn spænskættaði landsliðsmaður Filipseyja, Angel Guirado Aldeguer, skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Jósefs Kristins.

Staða Grindavíkur í deildinni breyttist lítið eftir þennan leik, en liðið mjakaði sér þó uppfyrir Fjarðabyggð sem töpuðu fyrir Gróttu á heimavelli í gær. Grindavík er því með 27 stig í 5. sæti þegar fimm umferðir eru eftir. Næsti leikur er útileikur gegn HK í Kópavogi á laugardaginn kl. 14:00.

Magnús Bjarni Pétursson sá um textalýsingu leiksins á Fótbolta.net. Hana má lesa hér.