Þrívíddarinnlit í nýtt íþróttahús

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Framkvæmdir eru hafnar við nýtt íþróttahús hér í Grindavík. Þó enn sé nokkuð í verklok, en þau eru áætluð í byrjun árs 2019, er nú hægt að skyggnast inn í framtíðina hér með þessum tölvuteiknuðu þrívíddarmyndum af íþróttamannvirkjunum eins og þau eiga að líta út að framkvæmdum loknum. Hér að neðan má einnig sjá þrívíddarvídjó þar sem hægt er að ferðast um inniviði hússins. Það er Grindin sem er yfirverktaki að framkvæmdunum.

Langt ferli loks á enda komið

Árið 2014 var stofnuð verkefnisnefnd íþróttamannvirkja um næstu skref í byggingu íþróttamannvirkja. Nefndin er skipuð fulltrúum frá íþróttahreyfingunni og öllum stjórnamálaflokkum í Grindavík. Sú nefnd tók við hlutverki fyrri nefndar. Nefndin vann undirbúningsvinnu með skissum, þarfagreiningu og útboði á hönnun ásamt eftirliti og umsjón með hönnun mannvirkisins. Mannvirkið verður um 2.500 m2 að stærð og samanstendur af fjölnota bardagasal, sjoppu, geymslum og íþróttahúsi. Húsið er hannað af Batteríinu arkitektum, Eflu verkfræðistofa sá um bruna- og rafmagnshönnun, Trivíum hljóðhannaði og  Strendingur hannaði burðarþol og lagnir. Tækniþjónusta SÁ mun sjá um byggingarstjórn og verkeftirlit. Skrifað var undir verksamning við Grindina í lok mars á þessu ári.