Eftir ágæta byrjun á tímabilinu hjá meistaraflokki kvenna í Dominosdeildinni hefur heldur fjarað undan gengi liðsins og í gærkvöldi leit þriðja tapið í röð dagsins ljós, og það fjórða á tímabilinu. Valsstúlkur fóru með sigur af hólmi, 81-89, í jöfnum leik. Sigurinn hefði getað lent hvoru megin sem var en það háði okkar stúlkum þegar leið á hversu lítið framlag kom frá öðrum leikmönnum en hinni bandarísku Rachel Tecca.
Tecca var í því sem gjarnan er kallað “beast mode” í gær og var hreinlega óstöðvandi undir körfunni. Hún bauð uppá 38 stig og 14 fráköst og 67% skotnýtingu. Petrúnella kom næst með 14 stig og Ingibjörg gaf 11 stoðsendingar, en aðrir leikmenn skoruðu afar lítið og fór enginn annar fyrir 7 stig. Eftir leikinn sagði Sverrir þjálfari vissulega sjá batamerki á leik liðsins en betur má ef duga skal og ljóst að hann og stelpurnar eiga töluverða vinnu fyrir höndum.