Grindavík steinlá fyrir sprækum Stjörnumönnum á Grindavíkurvelli í Pepsideild karla 4-1 þrátt fyrir draumabyrjun því Gavin Morrison skoraði eftir 27 sekúndur. En slakur seinni hálfleikur varð okkar mönnum að falli og Grindavíkur situr því á botninum með eitt stig eftir fjórar umferðir.
Áhorfendur á Grindavíkurvelli voru varla búnir að tylla sér þegar Gavin Morrison var búinn að skora fyrir heimamenn og slá þar með á áhyggjur af markaskorti. Morrison skoraði í rauninni úr fyrstu sókn Grindvíkinga, nýtti sér dapra hreinsun Stjörnumanna eftir fyrirgjöf frá vinstri og skoraði með góðu skoti eftir aðeins 27 sekúndna leik. Stjörnumenn voru tiltölulega fljótir að hrista sig saman og Atli Jóhannsson jafnaði metin á 8.mínútu. Atli skoraði af stuttu færi eftir sendingu Daníels Laxdal frá hægri. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleik, en Garðar Jóhannsson komst þó nærri því að koma Stjörnumönnum yfir þegar hann þrumaði boltanum í þverslána á marki Grindvíkinga.
Stjörnumenn hófu síðari hálfleikinn af nokkrum krafti og uppskáru mark á 58.mínútu. Atli Jóhannsson skoraði þá sitt annað mark í leiknum, Hörður Árnason skeiðaði upp hægra megin eftir að Grindvíkingar höfðu misst boltann klaufalega frá sér, sendi inn á teig og hitti beint á Atla sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði. Aðeins fimm mínútum síðar bættu gestirnir úr Garðabænum við þriðja markinu og þar var á ferðinni Kennie Chopart. Chopart fékk sendingu frá Garðari Jóhannssyni inn fyrir vörn Grindvíkinga og setti boltann í hornið af miklu öryggi, 3-1 fyrir Stjörnuna. Markasöfnun Garðbæðinga var þó ekki lokið. Mads Laudrup, af kunnu dönsku knattspyrnukyni, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Stjörnuna á 69.mínútu, skallaði þá boltann í netið eftir sendingu Kennie Chopart. Ekkert merkilegt né markvisst gerðist eftir þetta og Stjarnan pakkaði stigunum saman í ferðatösku og tók með heim í Garðabæinn.
Ljóst er að botnbarátta bíður Grindavíkurliðsins enn eitt árið. En hafa ber í huga að fyrir tveimur árum tapaði liðið sex fyrstu leikjunum en náði samt að halda sæti sínu í deildinni!
Grindavík: Óskar Pétursson – Loic Mbang Ondo, Ólafur Örn Bjarnason, Mikael Edlund, Ray Anthony Jónsson – Óli Baldur Bjarnason, Gavin Morrison (Alex Freyr Hilmarsson 71.), Scott Ramsay (Páll Guðmundsson 51.), Marko Valdimar Stefánsson – Pape Mamadou Faye (Jordan Eldridge 83.), Tomi Ameobi
Mynd: Vf.is