Þórsarar völtuðu yfir Grindvíkinga í seinni hálfleik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar tóku á móti nágrönnum sínum frá Þorlákshöfn í Mustad höllinni í gær í leik sem einkenndist af miklum sveiflum. Gestirnir frá Þorlákshöfn skoruðu aðeins 31 stig í fyrri hálfleik og útlitið gott fyrir heimamenn. En í seinni hálfleik mættu Þórsarar mun ákveðnari til leiks og unnu að lokum sigur, 81-87. 

Sigurbjörn Dagbjartsson fjallaði um leikinn á karfan.is:

Eftir tvo sigurleiki í röð hjá Grindvíkingum og tap Þórs í bikarúrslitunum um síðustu helgi, átti undirritaður von á að Grindvíkingar myndu mæta með stemninguna sín megin og ná þriðja sigurleiknum í röð og eftir flottan fyrri hálfleik þeirra gulu þá stefndi ýmislegt í þá átt en seinni hálfleikur var grænn í gegn og Þórsarar unnu tiltölulega öruggan sigur í lokin, 81-87.

Grindvíkingar mættu mun grimmari til leiks og spiluðu fantavörn og þá sérstaklega á hinn frábæra ameríska leikmann Þórsara, Vance Michael Hall en hann virkaði pirraður á köflum í fyrri hálfleik og labbaði einungis með 8 stig á skorkortinu til hálfleiks. Munurinn í hálfleik einungis 8 stig en hefði átt að vera mun meiri því Grindvíkingar nýttu oft á tíðum ekki meðbyrinn þegar þeir gátu aukið 8-10 stiga mun í eitthvað mun meira.

Allt annað Þórslið mætti síðan til leiks í seinni hálfleik og eins var varla hægt að þekkja heimamenn sem fengu á sig 32 stig í 3. leikhluta! Undirrituðum hefur oft á tíðum sýnst þetta, að Grindvíkingar hreinlega mæti ekki til leiks í upphafi síðari hálfleiks. Fátt um varnir og sóknarleikurinn mjög fálmkenndur. Vance Hall hristi heldur betur af sér slyðruorðið eftir „hárþurrku” Einars Árna í hálfleik og var mjög beittur í seinni hálfleik.
Munurinn varð þó aldrei það mikill að „eggin gætu farið í kælinn” og gerðu heimamenn áhlaup í lokin en komust aldrei nær en 4 stig og því fór sem fór, 7 stiga sigur Þórsara.

Vance Hall var besti maður gestanna og endaði með 31 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Emil Karel átti líka frábæran leik og endaði með 19 stig, hitti 5/10 3-stiga skotum sínum. Nat-vélin með flotta tvennu, 15 stig og 12 fráköst.

Hjá Grindvíkingum bar mest á „Chuck” Garcia en betur má ef duga skal….. Hann endaði með 27 stig og 8 fráköst en voru mjög mislagðar hendur í lokafjórðungnum. Jóhann Árni átti góða spretti en mestu munaði væntanlega um að Jón Axel sem var frábær í sigurleikjunum á móti Stjörnunni og Keflavík, skilaði ekki álíka framlagi í kvöld.

Viðtöl við þjálfarana:
Hver var munurinn á milli fyrri og seinni hálfleiks?

Einar Árni: „Mest megnis var þetta hugarfarsbreyting hjá okkur. Okkur fannst Grindvíkingarnir fá að spila fast í fyrri hálfleik en ræddum það í hálfleik að við gætum ekki stjórnað hvaða línu dómararnir leggðu og ákváðum að spila fast á móti í seinni hálfleik. Við vorum náttúrulega hlægilegir sóknarlega í fyrri hálfleik, skorum 31 stig og ekkert að frétta en allt annað að sjá liðið í seinni hálfleik. Við fengum mikið framlag frá Emil fyrir utan og Vance hrekkur í gang og þegar við vinnum saman þá erum við bara hel…. góðir!”

Jóhann Þór: „Við vorum soft í seinni hálfleik, vantaði frumkvæði sóknarlega, já eða í raun varnar- og sóknarlega. Við fáum á okkur 56 stig í seinni hálfleik sem er allt of mikið. Við töluðum um í hálfleik að halda frumkvæðinu en það bara gerðist ekki og við vorum að elta allan tímann og þá varð þetta erfitt”

Grindavík-Þór Þ. 81-87 (20-15, 19-16, 19-32, 23-24)

Grindavík: Charles Wayne Garcia Jr. 27/8 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 14, Jón Axel Guðmundsson 12/14 fráköst/10 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 10/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 10/9 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 5, Hinrik Guðbjartsson 3, Hilmir Kristjánsson 0, Ingvi Þór Guðmundsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0.

Þór Þ.: Vance Michael Hall 31/9 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 19, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 15/12 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9, Þorsteinn Már Ragnarsson 6/4 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 5, Baldur Þór Ragnarsson 2, Magnús Breki Þórðason 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Jón Jökull Þráinsson 0, Davíð Arnar Ágústsson 0, Ragnar Örn Bragason 0/7 fráköst.