Þórsarar jöfnuðu einvígið gegn Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar náðu ekki að stela útisigri gegn Þórsurum í viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Domino’s deildar karla þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í gær. Leikurinn varð jafn og spennandi á lokametrunum og lokatölur urðu 90-86.  

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Í kvöld fór fram annar leikur Grindavíkur og Þórsara úr Þorlákshöfn í úrslitakeppni Dominos deildar karla í Þorlákshöfn. Grindvíkingar unnu fyrsta leik liðanna nokkuð örugglega í Grindavík á fimmtudaginn síðasta. Nokkuð ljóst var fyrir leik að um hörkuleik var að fara að ræða.
Bæði lið mættu vel stemmd til leiks og voru stór skot að falla hjá báðum liðum. Ragnar Örn og Emil Karel fóru mikinn fyrir Þórsara í fyrsta leikhluta en þeir voru með 19 af 25 stigum Þórs liðsins í fyrsta leikhluta. Lewis Clinch atkvæðamestur fyrir Grindvíkinga með 8 stig.

Þórsarar mættu öflugir til leiks í öðrum leikhluta og náðu mest 15 stiga forystu á gestina úr Grindavík. Grindvíkingar gerðu hvað þeir gátu til að saxa á forystu Þórsara en virtist það lítið ganga upp og náðu heimamenn alltaf að halda gestunum vel frá sér. 12 stiga munur var á liðunum þegar flautað var til hálfleiks. 52-40 Þórsurum í vil.

Grindvíkingar hertu vörnina gríðarlega í 3.leikhluta og fóru að setja niður skotin sín. Grindvíkingar voru að neyða Þórsara í erfið skot og voru gestirnir að sunnan að refsa þeim með því að setja skotin sín niður. Dagur Kár Jónsson setti niður flottan buzzer í lok leikhlutans til að minnka forystu Þórsara niður í 6 stig. Að loknum 3.leikhluta var Dagur Kár stigahæstur í liði Grindavíkur með 18 stig en Þórsara megin var það Tobin Carberry með 21 stig.

Grindvíkingar hömruðu á járnið meðan að það var heitt og héldu áfram að saxa á forskot heimamanna. Þorleifur Ólafsson kom þessu niður í 3 stig þegar 8 mínútur lifðu leiks en Þórsarar létu það ekki buga sig og stigu aðeins á bensíngjöfina og komu þessu upp í 6 stig. Halldór Garðar Hermansson lét mikið fyrir sér fara í lokaleikhlutanum en hann setti 2 mjög stóra þrista sem auðveldaði Grindvíkingum ekki fyrir. Þórsarar sigldu heim sigrinum í vægast sagt miklum spennuleik. Lokatölur í Icelandic Glacial Höllinni í Þorlákshöfn, Þór Þ. 90-86 Grindavík.

Lykillinn
Gríðarleg barátta heimamanna og framlag af bekknum skóp þennan sigur fyrir Þórsara. Heimamenn létu ekki áhlaup Grindvíkinga trufla sig og héldu áfram að berjast. Bekkurinn hjá Þórsurum skilaði 16 stigum í kvöld á móti 6 stigum bekkjarins hjá Grindavík. Halldór Garðar Hermannsson var drjúgur fyrir heimamenn í kvöld en hann skilaði 14 stigum af bekknum og tók 6 fráköst með því. Tobin Carberry er samt óumdeilanlega einn af bestu leikmönnum deildarinnar og sýndi hann og sannaði það í kvöld með 30 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum. Grindvíkingarnir verða að stöðva Tobin ef þeir ætla að landa þessari rimmu.

Hvað má betur fara?
Grindavík: Eins og áður hefur komið fram verða Grindvíkingar að reyna að eiga betur við Tobin Carberry ef þeir ætla sér að vinna Þórsara. En framlag annara leikmanna Þórs í kvöld var frábært og voru þeir gríðarlega erfiðir viðureignar í kvöld.

Þór Þorlákshöfn: Þórsarar verða að passa að hleypa Grindvíkingum ekki í skotstuð, Lewis Clinch, Ólafur Ólafsson, Dagur Kár og fleiri nýttu sér það í botn að fá þægileg skot. Þórsurum gekk ágætlega að dekka Grindvíkinga þegar þeir fóru að bakka með þá inní teig og er það gríðarlega jákvætt fyrir Þórsara miðað við hæð leikmannanna sem eru inná vellinum þegar Grétar Ingi er ekki inná.

Stúkan
Það var vel mætt í Icelandic Glacial Höllina í kvöld en stemningin í stúkunni var skrýtin. Mjög sérstakt trommubann var sett í Þorlákshöfn en bannað var að mæta með sneriltrommu og lúðra og var oft dauðaþögn í salnum meðan leikurinn spilaðist sem er afar sérstakt í úrslitakeppninni. Engu að síður flott mæting.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun / Axel Örn Sæmundsson