Þorleifur kláraði Njarðvík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík gerði sér lítið fyrir og skellti Njarðvík í átta liða úrslitum Lengjubikars karla í körfubolta og tryggði sér þar með farseðilinn í undanúrslitaeinvígið „Fjögur fræknu”. Hetja Grindavíkur var Þorleifur Ólafsson sem skoraði fimm síðustu stig leiksins, þarf af sigurkörfuna. 

Njarðvík hafði forystuna nánast allan leiktímann og náðu fjögurra stiga forystu 84-80 þegar 40 sekúndur voru eftir. En Þorleifur setti niður þrist og kláraði svo leikinn með flottri körfu skömmu fyrir leikslok. Reyndar átti Njarðvík síðustu sóknina en hún klikkaði.

Sigur Grindvíkinga var athyglisverður ekki síst í ljósi þess að liðið lék án bandarísks leikmanns.

Jóhann Árni Ólafsson skoraði 19 stig fyrir Grindavík og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 15 stig og 12 fráköst.