Þór stöðvaði sigurgöngu Grindavíkur

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Þórsarar úr Þorlákshöfn eru komnir upp í annað sæti Iceland Express deildar karla eftir tíu stiga sigur á nýkrýndum deildarmeisturum Grindavíkur, 79-69, í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í gærkvöld. Grindavík var búið að vinna tíu deildarleiki í röð fyrir leikinn í kvöld og þetta var aðeins annað deildartap Grindvíkinga á tímabilinu.

Þórsliðið hefur verið í miklum ham undir stjórn Benedikts Guðmundssonar að undanförnu en þetta var fimmti sigur liðsins í röð. Darrin Govens skoraði 27 stig fyrir liðið í kvöld og Blagoj Janev var með 20 stig og 10 fráköst. J´Nathan Bullock skoraði 18 stig fyrir Grindavík og Giordan Watson var með 17 stig.

Grindvíkingar komust mest sjö stigum yfir í fyrsta leikhlutanum 16-9, en Þórsliðið var búið að minnka muninn niður í þrjú stig fyrir lok leikhlutans, 16-13. Grindvíkingar komust átta stigum yfir í upphafi annars leikhluta, 22-14, en tveimur mínútum síðar var staðan orðin jöfn 24-24. Leikurinn hélst jafn fram að hálfleik en staðan var 39-39 í leikhléi. Darrin Govens var búinn að skora 17 stig og gefa 4 stoðsendingar í hálfleik.

Þórsarar skoruðu 9 fyrstu stig seinni hálfleiksins og komust í 45-36. J´Nathan Bullock braut loksins ísinn fyrir Grindavík með þriggja stiga körfu þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhlutanum. Þórsliðið lét þessa forystu ekki af hendi. Þór var 59-48 yfir fyrir lokaleikhlutann og vann að lokum tíu stiga sigur.

Þór Þorlákshöfn-Grindavík 79-69 (13-16, 23-20, 23-12, 20-21)

Grindavík: J’Nathan Bullock 18/7 fráköst, Giordan Watson 17/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/6 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 6, Ryan Pettinella 5/4 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 3, Ólafur Ólafsson 2, Ómar Örn Sævarsson 2, Þorleifur Ólafsson 2.

Vísir.is