Röstin verður smekkfull í kvöld, mætið tímanlega. Karfan.is fór á stúfana og vildi endilega heyra frá fagmanni út af þjálfurunum í úrslitaeinvíginu þetta tímabilið. Benedikt Guðmundsson stýrir skútunni frá Þorlákshöfn en Helgi Jónas Guðfinnsson er við stjórnartaumana í Grindavík.
Í tilfelli Benedikts er um að ræða margreyndan þjálfara sem hefur verið lengi að en í tilfelli Helga Jónasar erum við með frábæran leikmann sem nú er tiltölulega ungur í sínu starfi. Við fengum Inga Þór Steinþórsson þjálfara Snæfells til að svara nokkrum laufléttum um þjálfarana í einvíginu.
Hvernig ætlar Benedikt að spila þetta?
Benni byggir áfram á því sem hann hefur verið að gera, hann er búinn að búa til mjög sterka liðsheild og þeir hafa getað treyst á hvern annan og farið langt á þessari aukasendingu. Govens er þannig að ef hann kemst ekki á körfuna þá dúndrar hann boltanum út. Liðsheildin og báráttan í vörninni er eitthvað sem er komið til að vera og þeir munu halda áfram að vinna saman sem lið. Vörnin þeirra hefur verið mjög fín og þeir hafa þvingað lið í að gefa sér hraðaupphlaup, gerðu það gegn okkur og líka gegn KR, það vilja öll lið fá hraðaupphlaupin og ég held að Þórsliðið sé sterkara í því en Grindavík. Benni er búinn að búa til gott lið, strákarnir þekkja sín hlutverk og líður vel í þeim. Leikurinn hefur breyst með Henley, ef Hairston væri flokkaður innan dýraríkisins væri hann villiköttur en með tilkomu Henley hefur skotvalið hjá Þór batnað. Ef Hairston fannst hann þurfa að taka skot þá bara skaut hann.
Hvernig ætlar Helgi Jónas að spila þetta?
Helgi heldur áfram sínu skipulagi. Með brotthvarfi Óla Óla, sem er hræðilegt og ég vona að hann sjáist sem allra fyrst inni á parketinu, þarf Helgi að breyta ,,róteringunni” en hann er með sterkan leikmannahóp og flest lið hefðu nánast lamast við að missa leikmann eins og Ólaf. Menn eins og Ómar Sævars sem hafa nánast borgað sig inn á leikina fá aðeins að sjá gólfið núna en það kemur sér illa að þurfa að breyta róteringunni þegar í úrslit er komið. Helgi á eftir að leggja áherslu á að hægja aðeins á Þórsurum og þeir í Grindavík hafa verið að hjálpa vel í vörninni og verða með sömu áherslur þar. Þeir munu líka leika sína þríhyrningssókn og ekkert nýtt undir sólinni þar. Hvort Helgi Jónas þurfi að undirbúa lið sitt gegn maður á mann vörn eða svæðisvörn mun koma í ljós þar sem Grindavík tapaði gegn Þór þegar nýliðarnir léku annarsvegar svæðisvörn og hinsvegar maður á mann vörn. Sá þjálfari sem verður aðeins klókari í þessari skák muni lyfta dollunni, klókindin eru mikilvæg í þessu.
Hver finnst þér munurinn á þessum þjálfurum vera?
Reynslan er Benna megin og hann er meiri refur en Helgi en Helgi var frábær leikmaður sem þekkir leikinn vel og er núna að skólast til í þjálfarastarfi. Hann lærði mikið í fyrra og með nýju fólki koma nýjar áherslur en mér finnst Benni vera búinn að gera meira lið úr því sem hann er með á meðan Helgi er að kljást við leikmenn sem eru stórir póstar í hlutverkaleikjum. Munurinn er reynsla og klókindi sem liggja Benna megin en báðir eru gríðarlegir keppnismenn og báðir toppmenn. Benni hefur unnið þetta áður en munurinn er einnig sá að þeir hafa ekki sömu spil á hendi. Annar er með trompin en hinn er með mannspilin. Það er misgefið í þessu.