Þetta var ekki bara dans á rósum

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Úrvalsdeild karla í körfubolta hefst í kvöld þegar Íslandsmeistarar Grindavíkur taka á móti KR í Röstinni kl. 19:15. Sverrir Þór Sverrisson tók við sjálfum Íslandsmeisturum Grindavíkur í fyrrasumar. Hann hafði gert kvennalið Njarðvíkur að tvöföldum Íslandsmeisturum þá um vorið en hann stökk beint út í djúpu laugina í karlakörfuboltanum með því að taka við besta liði landsins. En Sverrir lifir fyrir áskoranir og honum tókst að stýra Grindavík til sigurs, liðinu tókst að verja Íslandsmeistaratitilinn eftir eftirminnilega rimmu við Stjörnuna þar sem Grindavík hafði betur í oddaleik liðanna.  

Sverrir var fyrst beðinn að líta yfir fyrsta tímabilið sitt sem þjálfari Grindavíkur.

„Þetta var mjög gott tímabil. Ég tók auðvitað við góðu liði en það voru talsverðar breytingar frá því árið áður. Fyrirliðinn Páll Axel Vilbergsson var farinn sem og útlendingarnir. Við fengu auðvitað nýja útlendinga og leikmenn sem ekki voru mikið með áður. Okkur tókst að vinna deildina og tryggja okkur Íslandsmeistaratitilinn en töpuðum bikarúrslitaleiknum sem voru auðvitað mestu vonbrigðin. Við lentum í því að fá skelli inn á milli sem við þurftum að vinna okkur út úr. Til að mynda í úrslitaeinvíginu við Stjörnuna lentum við undir í einvíginu 2-1. Við fórum erfiðu leiðina, unnu þá í fjórða leik í Garðabæ og tryggðum okkur titilinn í oddaleik. Þetta er það sem skilur mest eftir sig hjá mér sem þjálfara, sú reynsla að þetta var ekki bara dans á rósum heldur þurfi að takast á við mótlæti sem lið. Það var svo ógleymanleg stund þegar við tryggðum okkur Íslandsmeistaratitilinn, það var auðvitað frábært að gera það á heimavelli fyrir framan stuðningsfólk okkar sem átti stóran þátt í velgengni liðsins,” segir Sverrir.

Tækifæri fyrir íslenska leikmenn

Í vetur verður aðeins leyfilegt að vera með einn bandarískan leikmann innanborðs í hverju liði í úrvalsdeildinni. Að sögn Sverris verður þetta líklega til þess að nú skapast tækifæri fyrir góða íslenska leikmenn að vera virkilega afgerandi í deildinni. Fyrir lið sem eiga hins vegar erfitt með að styrkja sig með íslenskum leikmönnum getur þessi regla sett strik í reikninginn og þau átt erfiðara með að styrkja sig. Það eru því kostir og gallar við þetta nýja fyrirkomulag.

Grindavík hefur verið ljónheppið með bandaríska leikmenn undanfarin tvö ár og hafa þeir átt stóran þátt í velgengni liðsins. Í haust þurfti Grindavík hins vegar að rifta samningi við Chris Stephenson því hann stóð ekki undir vætingum. Sverrir Þór segir að þarna hafi verið góður leikmaður á ferð en því miður fékk Grindavík ekki réttar upplýsingar um hann. Í ljós kom að hann fór í krossbandaaðgerð á síðasta ári og það kom ekki fram í gögnum sem send voru til félagsins. Hann var því frá í sjö mánuði og var einfaldlega ekki tilbúinn til þess að spila í úrvalsdeildinni hér á landi. Grindavík hefur fengið nýjan bandarískan leikmann og varð Kendall Timmons úr Tulane háskólanum fyrir valinu. Kendall útskrifaðist í vor og er því að hefja atvinnumannaferil sinn. Sverrir bindur vonir við að hann verði drjúgur fyrir Grindavík í vetur.

En hvernig lítur Íslandsmeistaraliðið út fyrir veturinn?
„Bara vel. Við erum með sterkan kjarna af reynslumiklum íslenskum leikmönnum, góða yngri leikmenn og einn útlending sem reyndar er enn spurningamerki en vonandi smellur hann inn í liðið. Við erum með nokkuð breiðan hóp og erum klárir í baráttuna um stóru titlana,” segir Sverrir.

Hann bendir á að hinn ungi og efnilegi Jón Axel Guðmundsson hafi mikið fengið að spila á undirbúningstímabilinu og verið annað hvort í byrjunarliðinu eða fyrsti maður inn af bekknum. Þá hafa yngri strákar eins og Jens Valgeirsson, Hilmir Kristjánsson og Hinrik Guðbjartsson einnig talsvert fengið að spreyta sig og staðið sig vel. Þá er Ómar Örn Sævarsson kominn aftur úr leikbanni og í raun hefur Grindavík fengið nýjan leikmann í Ólafi Ólafssyni.

„Ólafur var rétt af ná sér af erfiðum meiðslum síðasta vetur og reyndist liðinu drjúgur í úrslitakeppninni. En við vissum að hann ætti helling inni. Hann hefur æft vel í sumar og er kominn með mun stærra hlutverk hjá okkur núna og er í mjög góðu standi. Við munum spila okkar bolta í vetur, bæði skemmtilegan og árangursríkan líkt og Grindavíkurliðið hefur gert undanfarin ár.”

Suðurnesjabarátta?

Sverrir á von á því að Suðurnesjaliðin þrjú ásamt KR, Snæfelli og Stjörnunni muni berjast um fjögur efstu sætin í deildinni. „Flest þessi lið hafa styrkt sig vel með íslenskum leikmönnum. Við erum með allt sem þarf til að berjast um þessa stóru titla. Við höfum trú á því að við getum það þrátt fyrir að reikna megi með mjög jafnri deild,” segir Sverrir. 

Hann vonast til þess að Grindvíkingar mæti vel á leiki í vetur. „Það var hörku góð mæting í fyrra, sérstaklega þegar leið á veturinn. Þegar góð lið hafa meðbyr og stemmningu á áhorfendapöllunum er ljóst að það getur hjálpað okkur alla leið,” sagði Sverrir Þór Sverrisson að endingu.


Viðtalið birtist einnig í Leikskrá körfuknattleiksdeildarinnar sem dreift verður i öll hús í bænum og víðar.