Úrvalsdeild kvenna í körfubolta hefst á morgun þegar Grindavík tekur á móti Snæfelli í Röstinni kl. 19:15. Óhætt er að segja að gríðarlegur metnaður sé í kringum kvennalið Grindavíkur enda öflugt kvennaráð sem heldur þar um stjórnartaumana, ráðið skipa metnaðarfullar konur sem láta verkin tala. Þær byrjuðu á því að ráða sigursælasta þjálfarann í kvennakörfuboltanum undanfarin ár, Jón Halldór Eðvaldsson.
Hann hefur þjálfað lengi í Keflavík, var m.a. í fimm ár með sigursælt kvennalið Keflavíkur sem hann gerði tvisvar að Íslandsmeisturum, hann hefur þjálfað yngri landslið og verið aðstoðarmaður karlaliðsins hjá Keflavík síðustu árin.
Grindavík hafnaði í sjötta sæti af átta liðum í úrvalsdeild kvenna á síðasta keppnistímabili. Aðspurður hvers vegna hann hefði ákveðið að kýla á það að taka að sér þjálfun kvennaliðs Grindavíkur segir Jón Halldór að það hafi í sjálfu sér verið eðlilegt skref á sínum þjálfaraferli. Hann var búinn með sinn kafla hjá kvennaliði Keflavíkur. Þá hafi hann tekið þá ákvörðun að halda þjálfun áfram. Honum bauðst að taka við kvennaliði Grindavíkur, klúbburinn sé flottur, stutt að fara og mjög gott bakland.
10 leikmenn farnir
Óhætt er að segja að ótrúlegar breytingar hafi verið á leikmannahópi kvennaliðsins á milli ára. Þrjár landsliðskonur eru komnar í gula búninginn.
Ingibjörg Jakobsdóttir gekk í raðir Grindavíkur á nýjan leik frá Íslands- og bikarmeistaraliði Keflavíkur en hún hefur verið á mála hjá Keflavík undanfarin þrjú ár. Ingibjörg lék með Grindavík upp yngri flokkana og skoraði 9 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili sínu með Grindavík í meistaraflokki.
Pálína María Gunnlaugsdóttir kom frá Keflavík en hún hefur verið besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin tvö ár. Hún samdi við Grindavík til næstu tveggja ára. Pálína átti frábært tímabil með meistaraliði Keflavíkur sem vann alla stóru titlana á nýafstaðinni leiktíð, og var meðal annars kjörin besti leikmaður og besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar í vor, en hún ákvað í kjölfarið að söðla um.
María Ben Erlingsdóttir er einnig mikill liðsstyrkur. María er miðherji sem kemur úr Keflavík en í fyrra spilaði hún í Frakklandi og þar áður með liði Vals.
Bandaríski leikmaðurinn í kvennaliði Grindavíkur í ár er framherjinn Lauren Oosdyke sem spilaði stórt hlutverk hjá University of Northern Colorado í bandaríska háskólaboltanum. Jón Halldór segist mjög ánægður með Oosdyke.
En þrátt fyrir allan þennan liðsstyrk hafa hvorki fleiri né færri en tíu leikmenn frá því í fyrra horfið á braut og má þar nefna lykilleikmenn á borð við Berglindi Magnsdóttur og Ingibjörgu Yrsu Ellertsdóttur og svo á landsliðskonan Petrúnella Skúladóttir von á barni og verður því ekki með liðinu í vetur.
„Við teflum fram algjörlega nýju liði. Undirstaðan eru ungar og efnilegar heimastelpur sem koma til með að fá tækifæri í vetur. En auðvitað tekur tíma að púsla þessu liði saman og undirbúningurinn hefur ekki gengið eins vel og ég vildi. Við byrjuðum að æfa 10. júní og það voru bara sjö til átta stelpur á æfingum fram eftir ágústmánuði. En þá fór á fjölga en í raun og veru erum við mánuði á eftir áætlun. En það er kraftur í þessu núna og við erum á réttri leið en þetta mun taka sinn tíma,” segir Jón Halldór.
Þjálfarinn segir að Grindavík muni spila skemmtilegan körfubolta í vetur þar sem mikið verður lagt upp úr hraða og ákefð leikmanna í vörn og sókn.
Markmiðin eru skýr
Markmiðin hjá Jóni Halldóri fyrir veturinn eru skýr:
„Við höfum tvö markmið. Annars vegar að vinna bikarkeppnina. Hins vegar að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Ég hef alltaf sagt að ég er í þessum bransa til að vinna titla. Ég gerði tveggja ára samning og við ætlum að vinna titil strax á fyrsta ári. Við höfum klárlega mannskap til þess að gera góða hluti,” segir Jón Halldór.
Hann vonast til þess að liðið fái góðan stuðning í vetur. Mikill áhugi er fyrir kvennaliðinu í Grindavík og vonast þjálfarinn til þess að sá áhugi skili sér í góðri mætingu á leiki liðsins.
„Þetta verður skemmtilegur vetur og því hvet ég alla til að mæta á leikina. Þetta helst í hendur. Þær vinna ekkert ef þær fá ekki stuðning, það er á hreinu. Það gætu gerst flottir hlutir ef við fáum bæjarbúa með okkur í lið. Svo á kvennaráðið það skilið. Þetta er fáránlega öflugt kvennaráð sem heldur utan um þetta,” sagði Jón Halldór að lokum.