Tekst Grindavík að landa titlinum í kvöld?

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

„Ég hvet alla Grindvíkinga til að mæta í Þorlákshöfn í kvöld. Við fengum frábæran stuðning í síðasta leik en það var sorglegt að klára einvígið ekki þá. Vonandi fáum við áframhaldandi stuðning í kvöld, við erum staðráðnir í að standa okkur betur og síðast, við erum búnir að greina hvað fór úrskeiðis og ætlum að klára þetta núna gegn Þór,” segir Þorleifur Ólafsson leikmaður Grindavíkurliðsins við heimasíðuna um fjórða leik liðanna kl. 19:15 í kvöld.

 

Með sigri tryggir Grindavík sér Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn en fari Þór með sigur af hólmi verður oddaleikur í Grindavík á föstudaginn.

Þorleifur hefur verið einn besti leikmaður Grindavíkinga í úrslitakeppninni eftir að hafa glímt við meiðsli síðustu tvö ár. Hann segist vera heill núna enda komi ekkert annað til greina. Ólafur bróðir hans er frá vegna meiðsla en aðrir leikmenn eru klárir í slaginn í kvöld.

Og þá er bara að taka hálftíma bíltúr á Suðurstrandarveginum og hvetja okkar menn til dáða í kvöld!