Grindavík og Stjarnan mættast í þriðju undanúrslitarimmu sinni í kvöld í Röstinni kl. 19:15. Grindavík leiðir einvígið 2-0 og getur því tryggt sér sæti í úrslit með sigri í kvöld. Leikirnir hafa verið jafnir og spennandi fram að þessu og verður rimman í kvöld engin undantekning þar á.
Grindavík vann nauman sigur í Garðabæ í síðasta leik þar sem tvö vítaskot frá Páli Axel Vilbergssyni tryggðu okkar mönnum sigurinn en þetta voru einu stig hans í leiknum.
,Ég var drullustressaður enda klikkaði ég úr tveimur vítum í fyrri hálfleik og ég veit ekki hvort þið hafið séð það en ég var að skíta í mig á línunni,” sagði Páll Axel Vilbergsson í samtali við Karfan.is eftir leikinn í Garðabæ.
,,Ég var bara ekkert í takt við leikinn enda er maður oft spenntur og taugatrekktur og ef það væru engin fiðrildi í maganum þá væri ekkert gaman af þessu. Um leið og maður missir fiðrildin og alla spennuna úr þessu þá á maður bara að hætta,” sagði Páll en var ekkert endilega á því að það væri einhver háskólaboltafnykur af þessari rimmu.
,,Hafa þessir leikir í undanúrslitum ekki bara einkennst af lágu stigaskori fyrir utan kannski Þór og KR í gær. Ég held að það sé bara spilað fast, taugarnar eru þandar og menn hitta kannski verr en vanalega,” sagði Páll Axel.