Tap í Vesturbænum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

KR-ingar unnu í gær 4-1 sigur á Grindavík í eina leik dagsins í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Grindavík er enn í neðsta sæti með 3 stig eftir 9 umferðir.

 

Það stefndi allt í markalausan fyrri hálfleik en uppúr hornspyrnu á 45.mínútu skoraði KR. Hornspyrna að marki Grindavíkur og Grétar Sigfinnur, fyrirliði KR, skoraði með skalla, en skömmu áður hafði þverslá KR-inga nötrað eftir stórsókn Grindavíkur.

Grindavíkingar komu vel stemmdir út í seinni hálfleikinn og létu finna vel fyrir sér á upphafsmínútum hálfleiksins. Það var samt eftir laglega sókn KR sem annað mark leiksins kom. Óskar Örn Hauksson komst í gott skotfæri fyrir utan vítateiginn og lét hann vaða á markið. Óskar Pétursson varði en hélt ekki boltanum og Þorsteinn Már Ragnarsson var fyrstur til að átta sig og vippaði hann knettinum í markið. 2-0 þegar um 49.mínútur voru liðnar af leiknum. KR hélt áfram að sækja og það skilaði marki á 75.mínútu en þá skoraði Emil Atlason fallegt mark af stuttu færi úr vítateig Grindavíkur. KR með öll völd á vellinum og 3-0 forystu. Ólafur Örn Bjarnason, fyrirliði Grindavíkur, varð fyrir því óláni að skalla knöttinn í eigið mark undir lok leiksins og var formlegri dagskrá því lokið. Grindavík náði að klóra í bakkann undir lokin en Pape Mamadou Faye náði að koma knettinum í markið eftir vandræðagang í vítateig KR. Lokatölur 4-1 í Vesturbænum.

Grindavík: Óskar Pétursson (M), Matthías Örn Friðriksson, Björn Berg Bryde, Mikael Eklund, Ólafur Örn Bjarnason, Ray Anthony Jónsson, Marko Valdimar Stefánsson, Óli Baldur Bjarnason (Daníel Leó Grétarsson 80.mín.), Scott Mckenna Ramsay (Hafþór Ægir Vilhjálmsson 71.mín), Pape Mamadou Faye, Magnús Björgvinsson (Alex Freyr Hilmarsson 74.mín.) – Sport.is