Tap í fyrsta leik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík tapaði fyrir Víkingi 1-2 í 1. umferð 1. deildar karla á Grindavíkurvelli í gær. Grindavík hefði verðskuldað meira úr leiknum en liðið lék sérstaklega vel í seinni hálfleik en án þess að uppskera.

Grindavíkurliðið er talsvert breytt frá síðustu leiktíð og ungir og efnilegir leikmenn að stíga sín fyrstu skref. Einn þeirra, Daníel Leó Grétarsson, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark en hann stóð sig að öðru leiti mjög vel. Grindavík náði ekki að spila sinn flotta „Jankó“´fótbolta í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik tók Grindavík öll völd á vellinum. Hafþór Ægi Vilhjálmsson slapp einn í gegn en tókst ekki að skora en markið lá í loftinu. Stefán Þór Pálsson, lánsmaður frá Breiðablik, jafnaði metin fyrir Grindavík 1-1. En Víkingum tókst að komast aftur yfir skömmu síðar, þvert gegn gangi leiksins, og tókst að krækja sér í þrjú stig.

Grindavíkurliðið lofar góðu fyrir sumarið og á bara eftir að verða betra þegar vellirnir komast í betra ástand. Tap í fyrsta leik eru engin endalok og Víkingar eru satt að segja með nokkuð gott lið sem verður í toppbaráttunni í sumar.