Úrslitakeppnin fór ekki vel af stað hjá stelpunum en þær töpuðu í gærkvöldi nokkuð stórt í Stykkishólmi, 66-44. Grindvíkingar léku án Maríu Ben og óvíst hvort hún leiki meira með á tímabilinu. Okkar konur börðust vel í þessum leik og voru í góðum séns framan af en heimastúlkur tóku leikinn yfir hægt og bítandi í seinni hálfleik og lönduðu að lokum öruggum sigri.
Næsti leikur verður hér í Grindavík á laugardaginn kl. 16:30 og við ætlum að sjálfsögðu að fylla Röstina og styðja okkar stelpur til sigurs í þeim leik.
Karfan.is var að vanda með sinn fulltrúa á leiknum sem gerði honum góð skil:
„Eftir að hafa hampað deildarmeistaratilinum í vetur tók kvennalið Snæfells á móti bikarmeisturum Grindavíkur í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis Dominosdeildarinnar. Snæfell hafði alltaf haft yfirhöndina í vetur með alls 93 stig innbyrðis í fjórum leikjum.
Snæfell byrjaði betur 7-0 en Grindavík lagaði stöðuna með bættri vörn 9-9 eftir þriggja stiga körfu Pálínu Gunnlaugsdóttur. Snæfellsstúlkur urðu hikandi og köstuðu frá sér boltum í óðagoti. Varnarleikur liðanna var með ágætum í upphafi leiks en hið sama var ekki sagt um sóknir sem voru meira ráðvilltar og ekkert var skorað um tíma þegar staðan var 11-9. Leikurinn varð þungur fyrir vikið og síðustu fjórar mínútur fyrsta fjórðungs var skoruðu Grindavík fjögur stig gegn engu Snæfells og staðan 11-13 fyrir gestina.
Snæfell náði að jafna 15-15 en það var einhver stífleiki í leik heimastúlkna og í raun beggja liða og spurning um einhvern sviðsskrekk í fyrsta leik sérstaklega Snæfellsmegin sem voru ekki að höndla pressu Grindavíkur og eins og engin kynni sóknarkerfin. Gunnhildur og Kristen voru búnar að skora öll 17 stig Snæfells um miðjan annan hluta á meðan Grindavík dreifði sínum 17 aðeins betur. Snæfell virtust ná aðeins áttum og keyrðu vel í sóknum sínum og komust yfir 25-19 og var allt önnur hreyfing á liðinu en ekki máttu þær líta af Grindavíkurstúlkum sem komu tilbúnar í baráttu og stuð og staðan í hálfleik 26-21 og týpískur fyrsti leikur í úrslitum að líta dagsins ljós með tilheyrandi stíflum, lágu skori og mistökum.
Kristen McCarthy var komin með 15 stig og 9 fráköst en Gunnhildur fylgdi henni með 9 stig og 4 fráköst. Hjá Grindavík var Pálína komin með 7 stig og 5 fráköst en Petrúnella 6 stig og 7 fráköst og Kristina King 6 stig einnig.
Snæfell komst í forystu 30-21 strax í upphafi þriðja hluta. Grindavík settu aftur upp pressu eftir að hafa komist nær 31-27. Snæfell náðu að halda sig réttu megin við og héldu forystuhlutverkinu í þriðja leikhluta og gerðu ekkert meira en þurfti til að halda því út hann og staðan 42-34 og eins og í fyrri hálfleik var leikurinn stirður, stífur og tilþrifalítill en það gerist nú oft þegar á þennan stað er komið á tímabilinu og í fyrsta leik.
Snæfell tóku aðeins betur um taumana og með Kristen, komna með 34 stig og 16 fráköst voru þær komnar í 14 stiga forystu 50-36 og Grindavík þar búnar að skora tveimur stigum meira en Kristen en greinilegt að töluvert af Snæfellsliðinu þurfti að fylgja betur með og spila betur sem lið og af þeirri ástæðu einni náðu Grindavíkurstúlkur að halda áfram baráttu og minnkuðu niður í 8 stig 52-44. Þá tóku Alda Leif og Helga Hjördís sig til og settu niður sinn hvorn þristinn 60-44 þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum sem voru svo mikið sem dauðaskotin í leiknum og gerði þannig séð út um vonir Grindavíkur að gera eitthvað frekar til að ná sigri. Snæfell hafði öruggann sigur í lokin 66-44. 22 stiga sigur segir þó lítið um framvindu leiksins í heild en sú forysta hafðist bara rétt í lokin hjá Snæfelli. Þungur fyrsti leikur Snæfells og Grindavíkur svona heilt yfir og leikur tvö í Grindavík á laugardaginn 11. apríl kl 16:30.“
Snæfell: Kristen Denise McCarthy 40/19 fráköst/5 stolnir, Gunnhildur Gunnarsdóttir 11/8 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 5, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5/5 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 3, Hildur Sigurðardóttir 2/10 fráköst/5 stoðsendingar.
Grindavík: Kristina King 18/11 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 10/12 fráköst, Pálína María Gunnlaugsdóttir 7/9 fráköst, Jeanne Lois Figeroa Sicat 4, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 2, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 2, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 1.
Viðtal við Pálínu eftir leik, sem var á því að stigamunurinn í lokinn gæfi ekki rétta mynd af gangi leiksins