Grindvíkingar tóku á móti Víkingum frá Ólafsvík í gær, og óstaðfestar heimildir herma að þetta sé í fyrsta skipti sem þessi tvö lið mætast í deildarkeppninni. Það þarf a.m.k. að fara ansi langt aftur til að finna aðra slíka viðureign.
Það er skemmst frá því að segja að gestirnir fóru með sigur af hólmi, 0-1, í fremur daufum leik. Grindvíkingar sköpuðu sér fá færi og hefðu að ósekju mátt gera betur þegar þeir á annað borð gerðu sig líklega upp við mark gestanna.
Grindvíkingar hafa verið að glíma við nokkur meiðsli það sem af er sumri en það var ánægjulegt að sjá Andra Ólafsson koma inná en þar er greinilega á ferð leikmaður í háum gæðaflokki. Það er vonandi að hann haldist heill í sumar, en við bíðum enn eftir að skotinn síungi Scott Ramsay komist aftur til fullrar heilsu sem og kantmaðurinn eldsnöggi, Alexander Magnússon.
Næsti heimaleikur Grindvíkinga er föstudaginn 13. júní en þá kemur Þróttur frá Reykjavík í heimsókn.