Grindvíkingar heimsóttu Snæfell í síðustu umferð Dominosdeildar karla síðastliðið fimmtudagskvöld. Fyrir leikinn voru okkar menn loksins búnir að tryggja sæti í úrslitakeppninni en sigur í þessum leik hefði getað skutlað liðinu upp um nokkur sæti í töflunni. Það var því að miklu að keppa fyrir okkar menn en Snæfellingar voru fastir í 9. sætinu og voru því aðeins að spila uppá stoltið.
Grindvíkingar léku án Ólafs Ólafssonar sem er með lungnabólgu en verður vonandi búinn að jafna sig fyrir úrslitakeppnina. Þrátt fyrir stórleik hjá Rodney Alexander sem skoraði 33 stig og tók 19 fráköst og mjög góðan leik hjá hinum unga leikstjórnanda Jóni Axel Guðmundssyni (25 stig/4 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir) tókst okkar mönnum ekki að landa sigrinum í þetta skiptið.
Leikurinn var nokkuð jafn framan af en Snæfellingar virtust ætla að stinga af í upphafi 3. leikhluta. Grindvíkingar gáfu þó ekki upp og söxuðu á forskotið og þegar ein mínúta var eftir af leiknum var staðan 89-89. Heilladísirnar voru þó á bandi heimamanna sem áttu síðustu stig leiksins og sigruðu 91-89.
Þessi úrslit þýða að Grindvíkingar enda keppni í 8. sæti þetta árið og mæta KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fyrstu leikurinn fer fram í DHL höllinni fimmtudaginn 19. mars en liðin mætast svo í Grindavík sunnudaginn 22. mars. Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram.